„Verður skoðað í þaula hvað gerðist“

Þak Fossvogsskóla míglak á föstudaginn.
Þak Fossvogsskóla míglak á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er greiningarvinna í gangi og lítið annað hægt að segja um það núna,“ segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá verkfræðistofunni EFLU, sem annast eftirlit með framkvæmdum á Fossvogsskóla. 

Þak Fossvogsskóla míglak á föstudaginn þegar gerði mikla úrkomu en skólinn hefur nýlega verið gerður upp í annað sinn, fyrir töluverða fjármuni, vegna myglu í skólanum sem kom til vegna leka. 

Sylgja Dögg minnir á að verklok hafi ekki farið fram og í raun sé skólinn vinnusvæði. 

Húsnæði Fossvogsskóla er nýuppgert.
Húsnæði Fossvogsskóla er nýuppgert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er verið að rannsaka þetta. Strax klukkan sjö í morgun voru allir byrjaðir að greina hvað þarna gerðist. Allir aðilar, hönnuður, eigandi, verktaki og við. Það eru allir að rýna sig og saman.“ 

Sylgja segir að enn liggi ekki endanlega fyrir hvað lak. Verið sé að safna saman upplýsingum og myndum. 

„Það eina sem ég get sagt er að það verður skoða í þaula hvað gerðist,“ segir Sylgja Dögg. 

mbl.is