172 milljónir til stuðnings sviðslistaverkefna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ásamt þeim sem hlutu …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ásamt þeim sem hlutu styrki úr Sviðslistasjóði í ár. Ljósmynd/Stjórnarráðið

172 milljónum var úthlutað til stuðnings verkefnum í sviðslistum fyrir leikárið 2023/24.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti styrkina í Tjarnarbíó í dag. 

Sviðslistaráð veitir 105 milljónum króna til 13 atvinnusviðslistahópa á leikárinu og fylgja þeim 132 listamannalaunamánuðir sem jafngilda 67 milljónum króna, 58 mánuðir voru veittir einstaklingum utan sviðslistahópa,“ segir í tilkynningunni en heildarstuðningurinn er 172 milljónir á árinu. 

Hæstu styrkina hlutu Hringleikur - sirkuslistafélag fyrir götuleikhússýninguna Sæskrímslin sem mun fara fram á hafnarsvæðum víðs vegar um landið, og Menningarfélagið MurMur og sviðslistahópurinn Rauði sófinn fyrir endurgerð á íslenska verkinu Aðventu.

Alls bárust 111 umsóknir í sjóðinn og  var sótt um ríflega 1,1 milljarð króna í Sviðslistasjóð. Sótt var um alls 1.273 mánuði í launasjóð sviðslistafólks. 

mbl.is