Leikmenn haldi að ekkert annað sé í boði

Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands.
Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikmannasamtök Íslands (LSÍ) hafa fengið þó nokkra samninga úr Bestu deild kvenna inn á sitt borð þar sem kveðið er á um að greiðslur falli niður til leikmanns verði hann þungaður. Formaður samtakanna segir að um verktakasamninga sé að ræða og að nýjasta tilfellið sem þau viti af sé frá árinu 2021.

Hann tekur þó fram að LSÍ sjái einungis brot af þeim samningum sem gerðir eru við leikmenn og því sé möguleiki á að ákvæðið sé að finna í nýlegri samningum. 

„Leikmenn kannski halda að þetta sé eðlilegt og að það sé ekkert annað í boði. Leikmenn verða oft smeykir um það að ef að þeir geri einhverjar athugasemdir að þá eigi þeir í hættu á að missa samninginn eða þá að einhver fari að fikta í laununum sem eru ekki há fyrir – eða að þetta hafi áhrif á það viðmót sem þeir fá gagnvart klúbbnum eða þjálfaranum,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, formaður LSÍ, í samtali við mbl.is.

„Þess vegna er líka mikilvægt fyrir leikmenn að vera ekki einir í þessu, hvort sem það er kvenna eða karlamegin. Að vera með einhvern með sér að semja skapar smá fjarlægð við klúbbinn.“

Kemur upp þegar önnur mál eru skoðuð

Í færslu á Facebook birti LSÍ ákvæði í samning hjá liði í Bestu deild kvenna þar sem dæmi um þungunarákvæði kemur fram:

„3) Verði leikmaður þungaður á samningstímanum falla skuldbindingar félagsins samkvæmt þessari 4. gr. samningsins niður frá þeim tíma þegar 10 vikur eru liðnar af meðgöngu og þar til leikmaður næst hefur leik í úrvalsdeild Íslandsmóts eða Bikarkeppni KSÍ. Ákvæði þetta hefur ekki áhrif á áunninn bónus, en slíkur bónus skal koma til greiðslu samtímis greiðslu bónusgreiðslna til annarra leikmanna. Samningurinn heldur að öðru leyti gildi sínu á framangreindu tímabili, utan þeirra samningsskuldbindinga leikmanns sem hann getur eðli máls samkvæmt ekki uppfyllt vegna aðstæðna,“ segir í samningnum.

„Við höfum séð þetta í samningum sem að leikmenn hafa gert við félög. Í eiginlega öllum tilvikum hefur það komið upp þegar að við erum við samningaborðið eða þegar að við höfum fengið samning inn á borð til okkar þar sem að leikmaður hefur leitað til okkar út af einhverju öðru. Það getur verið að viðkomandi sé ekki að fá laun eða lækniskostnað greiddan. Við rennum yfir samninginn og sjáum þetta.“

Þegar þið hafið gert athugasemdir, er þetta þá tekið strax út?

„Við höfum alveg þurft að eiga samtöl um það af hverju þetta sé ekki eðlilegt.“

Verktakasamningar algengastir

Að sögn Arnars er í langflestum tilfellum um verktakasamninga að ræða enda er algengast að félög geri slíka samninga við leikmenn. 

„Það er mikið lýti á fótboltanum hérna heima. Þegar að við lítum til þeirra landa sem við berum okkur saman við – til dæmis bara í Noregi og Svíþjóð þá máttu ekki spila í tveimur efstu deildunum þar án þess að vera með launþegasamning. Það er bara ólöglegt. Það eru skýrar og góðar og gildar ástæður fyrir því. Við erum langt á eftir hérna heima.“

Ættum ekki að sjá svona dæmi í dag 

Arnar Sveinn segir að samtökin ræði ítarlega við Knattspyrnusamband Íslands um samninga við leikmenn. „Og þetta er auðvitað eitt atriði sem hefur komið upp,“ segir hann og vísar í ákvæðið um að greiðslur falli niður við þungun.

„Það er bara frekar nýlega sem að við náðum að koma því inn í samninga kvennamegin varðandi fæðingarorlof og rétt þegar kemur að barneignum. Það er komið inn í staðalsamning KSÍ þannig að í dag ættum við ekkert að sjá svona klásúlur. Það ætti ekki að vera hægt.“

Hann segir samtökin fyrst og fremst hafa viljað vekja athygli á málinu á Facebook til að undirstrika mikilvægi sigurs Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, fyrrverandi landsliðsfyrirliða, sem nýlega vann mál gegn Lyon, sínu gamla fótboltafélagi, sem hafði neitað að greiða henni þau laun sem hún átti rétt á þegar að hún var barnshafandi.

„Út frá þessum dómi Söru Bjarkar höfum við fundið fyrir talsvert miklum áhuga á samtökunum, sérstaklega kvennamegin, það eru talsvert fleiri skráningar í samtökin heldur en var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert