„Ómetanleg viðurkenning“

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í …
Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Pedro Gunnlaugur Garcia, Arndís Þórarinsdóttir og Ragnar Stefáns­son hlutu rétt í þessu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 34. sinn. Við sama tækifæri voru Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn 2023 afhent í 17. sinn og þau hlaut Skúli Sigurðsson.

Pedro hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Lungu sem Bjartur gefur út; Arndís í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Kollhnís sem Mál og menning gefur út og Ragnar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta sem Skrudda gefur út. Skúli hlaut Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir glæpasöguna Stóri bróðir sem Drápa gefur út.

Verðlaunahafar kvöldsins.
Verðlaunahafar kvöldsins. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda (Fíbút). Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt til 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka eða fagurbókmennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáldverka. Árið 2022 tók Fíbút að sér framkvæmd og fjármögnun Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans. Verðlaunaveiting þeirra og tilnefningar fara fram samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum og verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks ársins.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi tuttugu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefndina skipuðu formenn dómnefndanna fjögurra, þau Guðrún Steinþórsdóttir, Kamilla Guðmundsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Skúli Pálsson, ásamt Gísla Sigurðssyni forsetaskipuðum formanni nefndarinnar.

Skipti sköpum

„Að fá þessi verðlaun er ómetanleg viðurkenning fyrir höfund sem er að gefa út sitt fyrsta verk, ekki síst vegna þess hve öflug samkeppnin var í þetta sinn,“ sagði Skúli Sigurðsson þegar hann veitti verðlaununum viðtöku á Bessastöðum fyrr í kvöld. Í ræðu sinni þakkaði hann föður sínum, Sigurði Karlssyni, yfirlestur og eins konar skuggaritstjórn, og útgefanda sínum, Ásmundi Helgasyni í Drápu, fyrir að hafa haft trú á bókinni.

Bræðurnir Skúli Sigurðsson og Karl Sigurðsson.
Bræðurnir Skúli Sigurðsson og Karl Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í umsögn lokadómnefndar um Stóra bróður segir að bókin sé „haganlega saman sett saga um ofbeldisglæpi og vandlega undirbyggða hefnd með löngum aðdraganda sem flett er ofan af eftir því sem dýpt frásagnarinnar eykst. Fjölbreytt persónusköpun og markviss notkun ólíkra sjónarhorna eykur bæði á spennuna og skýrir hvernig hægt er að réttlæta óhæfuverk fyrir sjálfum sér (og jafnvel láta þau yfir sig ganga án þess að segja frá þeim). Um leið verða knýjandi innri ástæður hefndarinnar trúverðugar. Vel er haldið utan um hina mörgu og saman fléttuðu söguþræði í bland við breiða samfélagslýsingu og afhjúpun á stofnanatengdu ofbeldi gagnvart drengjum – sem á stóran þátt í óhugnaðinum og áhrifamætti sögunnar.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Skúli að tilnefningin hafi skipt sköpum í því að kynna fyrstu bók óþekkts höfundar. „Því bókin hefði auðveldlega geta týnst í jólabókaflóðinu. Verðlaunin sjálf geta síðan vonandi hjálpað bókinni erlendis,“ segir Skúli, en með verðlaunum fylgir að Stóri bróðir verður framlag Íslands til Glerlykilsins sem eru samnorræn glæpasagnaverðlaun.

Að sögn Skúla er hann langt kominn með næstu bók sem er væntanleg í haust. „Enda brýna verðlaunin mig bara til dáða um að skrifa meira. Næsta bók gerist í sama söguheimi og ég er kominn með hugmynd að þriðju bókinni sem einnig gerist þar,“ segir Skúli, en nánar er rætt við hann og aðra vinningshafa kvöldsins á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, miðvikudag. 

Kominn handan draumsins

„Að bókin hafi náð til lesenda, snert við sumum, og nú unnið til verðlauna er ákaflega ánægjulegt, undarlegt og satt að segja yfirþyrmandi. Ég átti alls ekki von á því, það var í besta falli fjarlægur draumur,“ sagði Pedro Gunnlaugur Garcia þegar hann veitti verðlaununum viðtöku.

Pedro Gunnlaugur Garcia
Pedro Gunnlaugur Garcia mbl.is/Kristinn Magnússon

Í umsögn lokadómnefndar um Lungu segir að skáldsagan sé „breið fjölskyldusaga margra kynslóða úr ólíkum heimshornum, sem færist smám saman inn á okkar tímaskeið hér á landi en teygir sig líka til framtíðar þegar kynslóðirnar safnast saman í sýndarveruleika sem kallast á við sjálfa alheimssöguna. Hér er sleginn nýr tónn í íslenskri skáldsagnagerð með töfrandi frásagnargleði sem fer áreynslu- og hispurslaust á milli dýpstu tilfinninga og átaka til ævintýralegra gleðistunda með goðsagnakenndu ívafi – þannig að jafnvel mestu hörmungarnar njóta góðs af gleðinni. Sambönd elskenda og kynslóða eru brotin og löskuð en sögur og minningar megna að lýsa upp örlagastundir í lífi þeirra, sýna lesandanum sjálfan lífsneistann og fanga oft kjarnann í langri ævi.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Pedro að viðurkenningin hafi komið honum ánægjulega á óvart, enda hafi síðasta bókmenntaár á Íslandi verið mjög öflugt. „Ég var búinn að brynja mig gegn því ef bókin hlyti enga athygli og ætti því með réttu ekki að láta verðlaunin hafa of mikil áhrif á mig heldur. En satt að segja fylgdi því óviðbúið spennufall. Mér fannst mikill sigur að vera tilnefndur, það var draumurinn. Með því að fá verðlaunin er ég kominn handan draumsins. Í bili er ég bara mjög þakklátur,“ segir Pedro og tekur fram að hann bindi vonir við það að verðlaunin geti opnað bókinni dyr erlendis. „Það væri brilljant að fá bókina þýdda yfir á portúgölsku þannig að föðurfólkið mitt úti geti lesið hana,“ segir Pedro. 

Mest afhjúpandi bókin

„Í kvöld er ég meyr og þakklátur höfundur, en alla daga er ég glaður og þakklátur lesandi,“ sagði Arndís Þórarinsdóttir þegar hún veitti verðlaununum viðtöku. Í þakkarræðu hennar kom fram að Kollhnís hefði verið áratug í vinnslu og um erfiða fæðingu hafi verið að ræða. „Aðallega óttaðist ég að bókin – umfram allar aðrar sem ég hef skrifað – væri of afhjúpandi. Að með því að skrifa þetta væri ég að gangast við því að sjálf hefði ég einhvern tímann hugsað það. Að ég væri vond manneskja.“

Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir

Í umsögn lokadómnefndar um Kollhnís kemur fram að bókin segi frá því „hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Arndís að verðlaunin hafi komið sér á óvart, enda hafi hún verið búin að lesa allar hinar bækurnar sem tilnefndar voru í sama flokki og bók hennar og hrifist af því hversu skemmtilegar og vel skrifaðar þær eru. „Sagan í Kollhnís stendur mér nærri að mjög mörgu leyti. Mér fannst mikilvægt að skrifa um allar erfiðu tilfinningarnar sem þrífast í nándinni sem fjölskyldan er og við þurfum að takast á við á öllum aldri. Stundum vitum við hvernig við ættum að bregðast við, en erum síðan ófær um það þegar til kastanna kemur. Það er svo vond tilfinning að finnast maður hafa brugðist vitlaust við.“

Vonar að bókin verði hvatning

„Þessi bók er skrifuð á auðlesinni íslensku, fyrir lærða sem leika og alla sem áhuga hafa á jarðvísindum, náttúruvá og almannavörnum. Hún er grundvallarrit í jarðskjálftaspáfræði,“ sagði Ragnar Stefánsson þegar hann veitti verðlaununum viðtöku.

Hjónin Ragnar Stefánsson og Ingibjörg Hjartardóttir.
Hjónin Ragnar Stefánsson og Ingibjörg Hjartardóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í umsögn lokadómnefndar um Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta segir að bókin geymi „afrakstur ævilangrar glímu við rannsóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Hér eru dregnar saman niðurstöður alþjóðlegrar þekkingarleitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suðurlandi. Sagan á bak við þennan heimsögulega árangur er sögð með aðgengilegum hætti, vel skrifuðum texta, upplýsandi kortum og skýringarmyndum, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum; uppgötvunarferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið örlæti. Hér getur hvert mannsbarn séð hvernig vísindaleg þekking verður til – á sviði sem varðar almenning miklu – og því er verkið líklegt til að laða ungt fólk að vísindum.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Ragnar að bókin hafi verið um fimm ár í vinnslu, en óbeint í mun lengri tíma. „Því hún byggir að hluta á fræðibók sem ég skrifaði og gaf út á ensku hjá Springer/Praxis 2011 og nefnist Adcances in Earthquake Prediction, Research and Risk Mittigation sem á íslensku gæti þýtt Framfarir í jarðskjálftaspám, rannsóknir og áhættuminnkun. Ég skrifaði hana á ensku til að hún næði til fólks á jarðskjálftasvæðum um allan heim. 

Í framhaldinu var skorað á mig að skrifa um efnið líka á íslensku, en ég sá strax að ekki dyggði að þýða bara ensku bókina yfir á íslensku þar sem hún yrði ekki við almanna hæfi. Þannig að ég ákvað að skrifa alveg nýja bók á íslensku sem væri auðmeltari fyrir þá sem ekki eru sérfræðingar í efninu. Mestur hluti verðlaunabókarinnar er hins vegar alvg nýr þar sem fjallað er um aðdraganga jarðskjálfta og tengsl milli þeirra um allt Ísland, byggt bæði á sögulegum heimildum og nýjustu mælingum,“ segir Ragnar sem um árabil leiddi alþjóðlegar jarðskjálftaspárannsóknir, sem höfðu það að markmiði að geta spáð fyrir um jarðskjálfta á gagnlegan hátt til að manneskjur og samfélög gætu brugðist við til bjargar.

Nánar er rætt við alla fjóra verðlaunahafana á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, miðvikudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert