3,3% atvinnuleysi í desember

Atvinnuleysi var 3,3% í desember.
Atvinnuleysi var 3,3% í desember. mbl.is/Unnur Karen

Atvinnuleysi var 3,3% í desember síðastliðnum, samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands.

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,8% og hlutfall starfandi 77,2%. Atvinnuleysi lækkaði um 1,6 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi dróst saman um 0,4 prósentustig, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Án árstíðaleiðréttinga, voru 216.300 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í desember 2022 sem jafngildir 78,1% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru 209.700 starfandi og 6.600 atvinnulausir og í atvinnuleit.

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 75,7% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 3,1%. Samanburður við desember 2021 sýnir að atvinnuleysi dróst saman um 1,3 prósentustig á milli ára á sama tíma og hlutfall starfandi jókst um 1,1 prósentustig.

mbl.is