Barn ekki tekið úr umráðum móður

Móðirin hefur dvalið með barninu á Íslandi í um það …
Móðirin hefur dvalið með barninu á Íslandi í um það bil ár. AFP

Hæstiréttur ómerkti í dag úrskurð Landsréttar, þar sem föður var heimilt að fá barn sitt tekið úr umráðum móður þess og afhent sér með beinni aðfarargerð, þremur mánuðum eftir uppkvaðningu úrskurðarins, hefði hún ekki áður farið með barnið til búseturíkis þeirra.

Barnið hefur dvalið með móður sinni á Íslandi síðan þann 17. janúar 2022 og er ekki ágreiningur um að þau hafi saman farið með forsjá þess. Barnið fæddist í ótilgreindu ríki árið 2021.

Ekkert bakland erlendis

Móðirin byggði á því að hún hafi ekki fjárhagslega burði til að dvelja í búseturíki barnsins ef fallist yrði á afhendingu barnsins þangað, á meðan leyst yrði úr máli um forsjá þess. Þar eigi hún sér engan samastað, enga fjölskyldu og ekkert bakland. Hún yrði því fjárhagslega upp á barnsföður sinn og fjölskyldu hans komin.

Landsréttur þyrfti að meta mögulegan skaða

Taldi dómurinn að Landsréttur gæti ekki komið sér hjá því að meta, á grundvelli viðhlítandi gagna, hvort afhending barnsins gæti haft í för með sér andlegan eða líkamlegan skaða ef A væri ekki fært að fylgja því eftir til búseturíkis og viðhalda þar tengslum við það. 

Þetta gilti þó svo að í niðurstöðu málsins fælist ekki efnisleg úrlausn um álitamál varðandi forsjá barnsins en málið var rekið eftir ákvæðum Haagsamningsins. 

Landsrétti hefði því borið að hlutast til um að afla mats um tengsl aðila við barn sitt og hvaða áhrif það kynni að hafa á andlega og líkamlega líðan þess og hvort því yrði á annan hátt komið í óbærilega stöðu ef fallist yrði á kröfur föðurins og að móðurinni væri ekki fært að fylgja barninu til búseturíkis.

Þar sem dómurinn hlutaðist ekki til um þessa gagnaöflun væri ekki unnt að leggja dóm á málið að svo komnu máli, sbr. 2. mgr. 42. gr. barnalaga. Því væri ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og var málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert