„Eru þetta allt eintóm fífl og fávitar þarna í Evrópu?“

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði á Alþingi í dag hvort eintóm fífl og fávitar væru ráðandi í Evrópu eða hvort Íslendingar ættu að líta í eigin barm. 

Setti hún spurninguna fram í sambandi við útlendingalöggjöf á Norðurlöndunum sem hafa verið hertar undanfarin ár. 

„Þegar fíflunum og fávitunum fjölgar í kringum mann, þá er komin tími til að líta í eigin barm – gera eitthvað í sínum málum,“ sagði Diljá og bætti við að það ætti ekki við um aðra þingmenn, heldur þvert á mót hafi umræðan verið og góð og gagnleg. 

Hún sagðist vera hugsi yfir hvort Íslendingar ættu að færa sig nær löggjöf ýmissa Evrópuþjóða.

Ættum að leggja við hlustir 

Diljá sagði að íslensku lögin væru ekki búin til í tómarúmi og byggðu á norrænni löggjöf og væru undir evrópskum áhrifum. 

„[Það] er ljóst að ýmislegt í okkar útlendingalöggjöf og framkvæmd á ekki hliðstæðu í nágrannalöndum okkar. Það þarf ekkert að deila um það,“ sagði hún og bætti við að fólk geti verið ósammála um hvort það sé gott eða slæmt. 

„Ef reynsla nágrannaþjóða okkar leiðir til þess að þau ákveða að haga sinni löggjöf með ákveðnum hætti, þannig að samhljómur er með þeim og við skerum okkur úr. Ættum við þá kannski að leggja við hlustir – eins og vanalega – eða eru þetta allt eintóm fífl og fávitar þarna í Evrópu?“

Ræða Diljá vakti töluverða athygli stjórnarandstöðunnar í kjölfarið, en frumvarp dómsmálaráðherra um alþjóðlega vernd verður til umræðu á þinginu í dag. 

mbl.is