„Erum að flýta okkur of mikið“

Fréttir af myglu í húsum í á Íslandi hafa verið …
Fréttir af myglu í húsum í á Íslandi hafa verið ófáar síðasta áratuginn eða svo. LJósmynd/RB

Tugir nýrra byggingarefna koma á markað á hverju ári, sem enginn hérlendis fylgist með hvernig virka við íslenskar aðstæður, að sögn tæknifræðingsins Einars Kristjáns Haraldssonar.

Ráðstefna um rakaskemmdir og myglu var haldin í Háskólanum í Reykjavík á mánudag en fagráðið Betri byggingar stóð fyrir ráðstefnunni í samvinnu við IceLAQ og HR. Önnur yfirskrift ráðstefnunnar var byggingagallar og fúsk í nýlegum byggingum. 

Einar Kristján var einn þeirra sem hélt þar erindi. „Ég skipti hverri framkvæmd í þrennt. Í fyrsta lagi hönnun og undirbúningur. Í öðru lagi eftirlitsaðilinn sem heldur utan um framkvæmdina og í þriðja lagi verktakinn. Tveir þriðju af þessu þurfa að vera í lagi,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Ef þú ert með lélegan hönnuð en góðan eftirlitsaðila og mjög góðan verktaka þá er hægt að laga til eftir hönnuðinn. Ef þú ert með frábærar teikningar og góðan verktaka þá skemmir eftirlitsaðilinn ekki mikið ef hann er ekki fyrir. Ef þú ert með lélegan verktaka en frábærar teikningar og gott eftirlit þá verður húsið skítsæmilegt. Þess vegna segi ég að ⅔ þurfi að vera í lagi og þannig komumst við yfir til Herra Meat Loaf,“ segir Einar og vísar til lagsins Two out of Three Ain´t Bad með Meat Loaf af hinni kunnu plötu Bat Out of Hell. 

„Húsnæði má alveg vera merkjavara“

Einar veltir því fyrir sér hvort húsnæði geti ekki verið merkjavara eins og margt annað. Þar á hann við að fólk geti átt auðveldara með að átta sig á hver vann við húsbygginguna ásamt því hver teiknaði. 

„Húsnæði má alveg vera merkjavara. Fólk kaupir varla uppþvottavél án þess að gúggla og fólk prófar nokkra bíla áður en það tekur ákvörðun um kaup á bíl. Þegar kemur að húsnæði er kannski verið að kaupa fyrir tífalda aleiguna. Fólk á 10% í húsinu og skuldsetur sig til 30-40 ára fyrir restinni. Fólk röltir um húsið eða íbúðina, líst vel á útsýnið og kaupir án þess að hugsa út í hver byggði eða hvernig var byggt.

Margir höfðu metnað fyrir arkitektúr og húsbyggingum á árum áður og sem dæmi þá vildi fólk kannski kaupa Guðjónshús. Í dag sjáum við mjög mismunandi gæði fyrir sama verð en allt er það markaðssett sem hágæða íbúðir. Það er fullt af flottum hönnuðum og flottum byggingaverktökum en fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir af hverjum er verið að kaupa.“ 

Dýrt að nota iðnaðinn sem tilraunastofu

Reglulega berast fréttir af myglu í húsnæði og nú síðast var leki í nýuppgerðu húsnæði í Fossvogsskóla. Mbl.is spurði Einar ekki út í einstök mál en almennt séð metur hann stöðuna á Íslandi þannig í dag að hraðinn sé orðinn vandamál. 

„Við erum að byggja rosalega hratt og það er hluti vandans. Við erum að flýta okkur of mikið og fjármagnskostnaður er mjög dýr. Við erum að horfa á það háa vexti að það munar um hvern mánuð fyrir þá sem ætla að selja nýjar fasteignir. Tímagjald hjá iðnaðarmönnum er mjög hátt og menn láta verkamenn gera meira en góðu hófi gegnir í stað þess að nota iðnmenntaða menn,“ segir Einar og hann sér eftir Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.

Einar Kristján Haraldsson flytur erindi sitt.
Einar Kristján Haraldsson flytur erindi sitt. Skjáskot

„Ísland er orðið eins og ein stór tilraunastofa hvað það varðar. Eftir að við hættum með Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins þá koma tugir nýrra byggingarefna á markað á hverju einasta ári og enginn fylgist með hvernig þau virka við íslenskar aðstæður. Evrópustaðlar eiga ekki við um íslenska veðráttu því við búum við allt aðrar aðstæður. Ég myndi segja að lykilatriði sé að endurvekja RB.

Til að mynda gaf RB út blöð með upplýsingum um frágang á hinu og þessu sem hönnuðir og hver sem er gat leitað í. Nú eru menn bara með teikningar framleiðanda og framleiðandinn er kannski staddur í þýskum skógi og hefur ekki séð skafrenning síðan hann sá sjónvarpsþáttinn Ófærð hér um árið. 

Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun hefur verið að skoða, núna á haustmánuðum, hvort ástæða sé til að endurvekja RB. Og ætlaði sér að koma með niðurstöðu núna um áramótin.  Ég gæti trúað því að markaðurinn bíði spenntur eftir formlegri niðurstöðu sem við vitum auðvitað öll hver hlýtur að vera. Það er of dýrt að nota allan byggingariðnaðinn sem tilraunastofu.“ 

Fúsk er ekki nýtt af nálinni

Ríki og sveitarfélög standa einnig frammi fyrir vanda að hans mati. „Það er mjög mismunandi hvernig menn eru í stakk búnir til að halda utan um flóknar framkvæmdir vegna þess að þú þarft að gera það að miklu leyti innanhúss.

Menn eru farnir að sjá þetta. Ólíkt mörgum er ég nokkuð bjartsýnn fyrir hönd Reykjavíkurborgar því borgin ætlar að setja nokkuð mikið fjármagn í viðhald. Á fimm til sjö árum gæti borgin snúið dæminu við hjá sér en þá þurfa fjármunirnir sem lofað var í viðhald að skila sér til og borgin þarf að fá mannskap í þetta.“ 

Einar tekur það fram að hann eigi ekki við að allt sé glatað í dag en hafi verið óaðfinnanlegt í gamla daga. 

„Ég er ekki viss um að við séum að byggja verri hús í heldur en fyrir fimmtíu eða hundrað árum. Orðið fúsk kemur úr þýsku og er til í íslenskri samheitaorðabók frá 18. öld. Þetta hefur því verið til lengi. Ég hef séð gömul hús með neftóbaksdósum í rafmagnsdósum og alls konar spýtum í innveggjum. Við ættum að geta gert bestu húsin í dag því við höfum tæknina og þekkinguna. Vandinn er sá að við gerum ekki eins vel og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert