Gat kom á stefni Baldurs

Breiðafjarðarferjan Baldur.
Breiðafjarðarferjan Baldur. mbl.is/Sigurður Bogi

Gat kom á stefni Baldurs þar sem ferjan var að sigla um ísilagðan Breiðafjörð í átt að Stykkishólmi í gær. Sjór komst inn í stefnið og safnaðist fyrir í tanki þar.

Tjónið var þó ekki verulegt, að sögn Jóhönnu Óskar Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Sæferða, sem segir gatið hafa verið um 10 millimetrar í þvermál og staðsett fyrir ofan sjólínu ferjunnar. Búið er að gera við gatið og urðu engar tafir á ferjunni sem siglir nú samkvæmt áætlun.

Farþegaferjan var smíðuð fyrir rúmum 40 árum og hefur öryggi hennar verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, m.a. eftir að Baldur varð vélarvana úti á Breiðafirði í mars 2021 og í júní á síðasta ári.

Að sögn Jóhönnu hefur aldur ferjunnar ekkert með gatið á stefninu að gera. Ferjan sé einfaldlega ekki hönnuð til þess að sigla í gegnum ís. 

„Þetta kemur út af lögnuðum ís og þessi ferja frekar en mörg önnur skip á Íslandi er ekki hönnuð til þess að ryðja sig í gegnum svona lagnaðan ís. Þau gera það en skipstjórarnir hægja ferðina þegar að það er ís framundan. Þetta hefur ekki með aldur ferjunnar að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert