Lóð sundlaugartúnsins minnkuð

Lóð borgarinnar við Vesturbæjarlaug verður minnkuð með nýju deiliskipulagi. Mynd …
Lóð borgarinnar við Vesturbæjarlaug verður minnkuð með nýju deiliskipulagi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfis- og skipulagsráð hefur samþykkt að minnka lóð sundlaugartúnsins svokallaða við Vesturbæjarlaug og færa lóðarmörk einbýlishúsa við Einimel 18-26 út, sem nemur 3,1 metra. 

Lóðareigendur við Einimel 18, 24 og 26 semja við Reykjavíkurborg um kaup á stika af borgarlandi en lóðir við Einimel 20 og 24 munu ekki semja við borgaryfirvöld. Þá hefur einnig verið samþykkt að heimila stækkun á lóð við Einimel 26 til norðurs í átt að gangstétt í borgarlandinu.

Tillaga um breytingu á deiliskipulagi svæðisins var samþykkt á fundi ráðsins í dag og verður lögð fyrir borgarráð.

Svarta punktalínan sýnir ný lóðarmörk en rauða punktalínan gömlu lóðarmörkin. …
Svarta punktalínan sýnir ný lóðarmörk en rauða punktalínan gömlu lóðarmörkin. Sundlaug Vesturbæjar er merkt bláum lit en hús við Einimel rauðum lit. Skjáskot/Deiliskipulagsuppdráttur Vesturbæjarlaugar

Girðingarnar inni á borgarlandinu fjarlægðar

Girðingar við einbýlishúsin, sem ná allt að 14 metrum inn að borgarlandi, hafa fengið að standa á túninu í nokkur ár en með breytingunni verða girðingarnar fjarlægðar af starfsfólki Reykjavíkurborgar. Því verði því stærra svæði eftirlátið almenningi, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fulltrúar borgarmeirihlutans, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar bókuðu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs að jákvætt væri að hægt sé að leysa úr lóðamálum á opna svæðinu við Vesturbæjarlaug með nýrri deiliskipulagstillögu.

Skjáskot/Deiliskipulagsuppdráttur Vesturbæjarlaugar

Segja gengið á hverfisstíg með stækkun lóðar Einimels 26

„Tillagan gerir ráð fyrir að almenningssvæðið stækki umtalsvert frá því sem reyndin er nú. Málið er flókið og á sér langa sögu. Í þeim tilvikum þar íbúar vilja halda í hluta af lóðunum þurfa þeir að greiða fullt verð fyrir,“ segir í bókun meirihlutans.

Ekki tóku fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sama streng og vöktu þeir athygli á skorti grænna svæða í Vesturbænum, þar sem þeim hafi farið fækkandi á undanförnum árum. Þá var stækkun einnar lóðarinnar um þrjá metra til norðurs talin sérstakt áhyggjuefni.

„Með því er gengið á hverfisstíg, sem þjónar gangandi og hjólandi umferð margra Vesturbæinga. Til dæmis þeirra er sækja leikskólann Vesturborg, Melaskóla, Vesturbæjarsundlaug, grenndargáma við túnið og þjónustu bakarís og verslana við Hofsvallagötu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is