„Mjög stór ákvörðun fyrir Þýskaland“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Olaf Scholz kanslari funduðu í Berlín …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Olaf Scholz kanslari funduðu í Berlín í dag. AFP/Tobias Schwarz

Stríðið var algjörlega miðlægt í okkar samtali,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um fund hennar með Olaf Scholz, kansl­ara Þýska­lands, í Berlín í dag. 

Hún segir að stríðið í Úkraínu hafi verið, líkt og oft áður, helst á dagskrá fundarins en þau hafi einnig rætt orku- og loftslagsmál ásmat formennsku Íslands í Evrópuráðinu. 

Í gær var greint frá því að Scholz hafi samþykkt að senda Leop­ard 2A6-orr­ustu­skriðdreka til Úkraínu. 

Katrín segir það algjöra tilviljun að fundur hennar og kanslarans hafi verið sama dag og ríkisstjórnin tilkynnti sendinguna formlega. „Það var auðvitað líka töluvert rætt,“ segir hún og bætir við að um stóra ákvörðun sé að ræða. 

„Þetta er mjög stór ákvörðun fyrir Þýskaland bara útaf sögunni. Þetta er stefnubreyting sem við höfum séð í þessu máli. Það er því ekkert skrýtið að þeir gefi sér tíma í að ígrunda þessa ákvörðun.“

Katrín segir að Scholz hafi tekið það fram í samtali þeirra og á blaðamannafundinum eftir á, að ákvörðunin sé tekin í mjög nánu samráði við bandamenn Þjóðverja, „sem eru auðvitað okkar bandamenn líka“.

Katrín segir að víða í Evrópu séu áhyggjur af einhverskonar …
Katrín segir að víða í Evrópu séu áhyggjur af einhverskonar stigmögnun stríðsins. AFP/Tobias Schwarz

Enginn friðsamleg lausn í sjónmáli 

Scholz sagði á þýska þinginu í dag að Vest­ur­lönd­ þyrftu að gæta sín þegar kem­ur að stuðningi við Úkraínu.

„Við verðum ávallt að gæta þess í öllu sem við ger­um að við séum að gera það sem er nauðsyn­legt og raun­hæft til að styðja við Úkraínu, en á sama tíma að við séum að sjá til þess að átök­in þró­ist ekki út í að verða stríð milli Rúss­lands og Atlants­hafs­banda­lags­ins,“ sagði Scholz.

Katrín segir að víða í Evrópu séu áhyggjur af einhverskonar stigmögnun stríðsins.

„Það er ekki nema eðlilegt því það er einhvern veginn enginn friðsamleg lausn í sjónmáli í þessu skelfingar stríði. Auðvitað hefur fólk áhyggjur en um leið er mjög skýr samstaða um stuðning við Úkraínu.“

Scholz verður viðstaddur fund Evrópuráðsins

Katrín nefnir að þau hafi einnig rætt töluvert um væntanlegan leiðtogafund Evrópuráðsins, en Ísland gegnir nú formennsku í ráðinu. Hún segir að Scholz hafi staðfest í dag að hann verði viðstaddur fundinn. 

„Við ræddum líka mikilvægi Evrópuráðsins útaf stríðinu. Bæði þessi gildi sem ráðið snýst um og líka að það er vettvangur þar sem að öll Evrópa kemur saman – ekki bara Evrópusambandið – heldur öll Evrópa,“ segir Katrín og bætir við að Rússland sé ekki lengur í ráðinu vegna innrásarinnar. 

Þá segir hún að þau hafi rætt talsvert um loftslags- og orkumálin ásamt kolefnisförgun. 

„Greinilegt að það er mikill áhugi á einhverskonar samstarfi á sviði rannsókna og þekkingaröflunar á þessu sviði. Sem ég held að geti skipt miklu máli fyrir okkur Íslendinga.“

Katrín er nú á leið til Strassborgar þar sem hún mun sitja fyrir svörum Evrópuráðsins um formennskuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert