Samstarf um aukið netöryggi og vernd barna

Áslaug Arna og Sigríður Björk við undirritun samninganna.
Áslaug Arna og Sigríður Björk við undirritun samninganna. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri undirrituðu í vikunni fjóra samninga upp á samtals 24 milljónir króna til ríkislögreglustjóra í aðgerðir sem miða annars vegar að því að auka vernd barna á netinu og hins vegar til að styrkja innviði lögreglunnar til þess að takast á við net- og tölvubrot almennt.

Aðgerðirnar eru allar hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027, að því er segir í tilkynningu.

Stafrænar tæknilausnir 

Tvær aðgerðir miða að aukinni vernd barna á netinu. Komið verður í kring stafrænum tæknilausnum til að tryggja að börn geti notað netið á hátt sem samrýmist rétti þeirra til verndar gegn skaðlegu efni. Einnig svo að þau geti nýtt tjáningarfrelsi sitt og möguleika stafrænnar tækni í leik og starfi.

Jafnframt verður tæknileg geta lögreglunnar styrkt til að rannsaka barnaníðsefni á netinu með gæði og skilvirkni slíkra rannsókna að leiðarljósi. Sérsniðið gagnavinnslukerfi verður útbúið, verkferlar samhæfðir við alþjóðlega greiningarviðmið og úrræði á vegum Europol og Interpol betur nýtt. 

„Gríðarlega mikilvægt“

„Á síðustu misserum höfum við hjá ríkislögreglustjóra leitast við að styrkja og vernda öryggi barna á netinu, með styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Við höldum áfram á þessari vegferð með mikilvægu framlagi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í dag,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri í tilkynningunni.

„Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum börnum möguleika á að nota netið með hætti sem samrýmist rétti þeirra til verndar gegn skaðlegu efni, en einnig svo þau geti nýtt tjáningarfrelsi sitt og möguleika stafrænnar tækni í leik og starfi.“

Mikilvægt er að efla viðbrögð lögreglu við afbrotum en aðeins lítill hluti þeirra (6%) sem verða fyrir tilraun netbrota eða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa, tilkynna slík mál til lögreglu.

Vernda þarf viðkvæma hópa

„Stóraukin almenn netnotkun krefst þess að stjórnvöld taki enn markvissari skref til aukins netöryggis og efli enn frekar viðbrögð við netöryggisógnum og atvikum sem ógna samfélaginu öllu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningunni.

„Aukning á notkun stafrænna lausna til misnotkunar og ofbeldis kallar á að hugað sé sérstaklega að vernd viðkvæmra hópa. Með samningum þessum við ríkislögreglustjóra erum við að taka mikilvæg skref í þá átt með því að einblína á vernd barna, sem er ein af aðal áherslumálum gildandi Netöryggisstefnu Íslands,“ bætir hún við.

mbl.is