Tæplega helmingur óánægður með borgarstjóra

Mikil óánægja er með störf Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.
Mikil óánægja er með störf Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru 48% aðspurðra óánægð með störf Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur. 

Almenn óánægja er með borgarstjórn Reykjavíkur en 46,6% svarenda töldu meirihlutann standa sig illa og 44,9% töldu minnihlutann jafnframt standa sig illa.

Mest óánægja með störf borgarstjóra var á meðal þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn.

Fylgi framsóknarflokksins helmingast

Fylgi Framsóknarflokksins meira en helmingast ef kosið yrði til sveitarstjórna nú, úr 18,7% í 8,2%. Fylgi Pírata nærri tvöfaldast, úr 11,6% í 20,4% en fylgi annarra flokka mælist svipað og í kosningunum 2022.

Samfylkingin mælist með mest fylgi, 23,4%, og Sjálfstæðisflokkurinn næststærstur með 22,3% fylgi.

Könnunin fór fram frá 25. nóvember til 2. desember 2022 og voru svarendur 702 talsins.

mbl.is