„Við vonum það besta en erum undirbúin því versta“

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um fyrirhugaðar …
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um fyrirhugaðar aðgerðir Eflingar.

Ekki fást upplýsingar um það hjá Íslandshótelum hve mikið fjárhagslegt tjón það gæti orðið fyrir hótelkeðjuna komi til verkfalls starfsfólks Eflingar á hótelunum.

Leynileg kosning stendur nú yfir um boðun vinnustöðvunar á starfsstöðvum fyrirtækjanna Íslandshótela hf. og Fosshótela ehf. en það fyrrnefnda rekur einnig það síðarnefnda. Verkfallsaðgerðunum yrði því aðeins beitt gegn einum rekstraraðila.

„Það yrði mjög óábyrgt af mér að fara að henda einhverjum tölum fram. Ég auðvitað bara trúi og treysti því ennþá að starfsfólkið mitt muni hafna verkfalli. Þannig ég ætla ekki að fara að tala um hvað getur verið í fjárhæðum og annað slíkt. Það verður bara að koma í ljós,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Spurður út í veltu fyrirtækisins segir hann um trúnaðarupplýsingar að ræða sem ekki sé hægt að gefa upp. Það sé hins vegar ljóst að komi til verkfalls, yrði tjónið mjög mikið.

Framkvæmdastjóri Íslandshótela trúir því að starfsfólkið hafni verkfalli.
Framkvæmdastjóri Íslandshótela trúir því að starfsfólkið hafni verkfalli. mbl.is/Árni Sæberg

Eignir vinnudeilusjóðs SA 5 milljarðar

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa heitið fullum stuðningi við Íslandshótel vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða og gefið út að allt tjón sem kunni að hljótast af þeim aðgerðum verði bætt.

„Ef þetta er ótímabundið þá verður þetta allt mjög erfitt og ef þetta fer að verða í marga daga, ég tala nú ekki um vikur, þá myndi tjónið vera alveg gríðarlega mikið,“ segir Davíð.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í Morgunblaðinu í dag að eignir vinnudeilusjóðs SA væru um fimm milljarðar króna. Sjóðurinn væri hugsaður til að bregðast við skæruverkföllum og þegar gripið væri til ómálefnalegra aðgerða gegna aðildarfélögum samtakanna.

Segir engan langa í verkfall

Framkvæmdastjóri Íslandshótela segir engan langa að fara í verkfall. Sitt starfsfólk vilji frekar ganga að sambærilegum samningi og Starfsgreinasambandið (SGS) gerði við SA fyrir jól, heldur en að fara í verkfall.

„Ég trúi því að fólkið okkar sé orðið mjög vel upplýst um stöðu mála í dag og að það yrði hagur fyrir þau að ganga að þessum SGS-samningum frekar en að fara í verkfall. Þau átta sig á því, að fá þessa afturvirku hækkun. Ef þau segja já við verkfalli þá er ekkert gefið á borðinu að þau geti fengið einhvern betri samning. Það er allt óljóst, en hitt liggur á borðinu og er klárt og þau vita hvað er. Við vitum að félagsmenn VR kusu með þeim samningi með yfir 80 prósent. Það verður ekkert öðruvísi hjá mér,“ segir Davíð, en þrátt fyrir bjartsýnina er hann við öllu búinn.

„Við vonum það besta en erum undirbúin því versta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert