Flóðið talið 30-50 metrar á breidd

Frá Patreksfirði í morgun.
Frá Patreksfirði í morgun. Ljósmynd/Aðsend

„Íbúar eru beðnir um að halda sig heima á meðan verið er að kanna stöðuna en við teljum að íbúar geti verið rólegir,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, en krapaflóð féll fyrir ofan byggðina á Patreksfirði rétt fyrir klukkan 10 í morgun. 

„Göturnar eru ennþá lokaðar hjá okkur á meðan verið er að kanna aðstæður og meta næstu skref. Nemendur í skólum eru innandyra. Ekki er talin hætta á öðru flóði á sama stað þar sem gilið sé búið að tæma sig og ekki er heldur talin vera flóðahætta úr öðrum giljum,“ segir Þórdís. 

Telur hún að flóðið hafi verið um 30-50 metra breitt þar sem krapinn stoppaði við Aðalstrætið og fór á eitt hús en vatnsflaumurinn fór lengra.

„Ein bifreið færðist úr stað og ekki er útilokað að flætt hafi inn í hús en það á eftir að koma í ljós.“

Lítill snjór er í fjallinu samkvæmt tilkynningunni frá Almannavörnum en mjög hefur rignt. 

„Já það rigndi mjög mikið í nótt og í morgun en það hefur minnkað. En það er greinilegt að mikil vatnssöfnun var í gilinu,“ segir Þórdís en flóðið féll niður sama farveg og flóðið sem féll á Patreksfirði fyrir fjörtíu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert