„Fólki líður ekki vel með þetta“

Frá Patreksfirði eftir krapaflóðið sem féll í morgun.
Frá Patreksfirði eftir krapaflóðið sem féll í morgun. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

„Íbúar voru í svolitlu sjokki. Þetta kom illa við þá. Maður er búinn að heyra það að fólki líður ekki vel með þetta og þetta ýfði upp ákveðin sár,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Krapaflóð féll á Patreksfirði klukkan tíu í morgun, á sama svæði og mannskætt krapaflóð sem féll fyrir 40 árum. Engan sakaði en í flóðinu árið 1983 létust fjórir og tíu særðust.

Varnargarðar hafa ekki verið settir upp á svæðinu, á þessum fjörutíu árum sem liðin eru.

Hefði verið skynsamlegt að hafa varnir

„Við vitum að það eru ofanflóðaáætlanir hjá Ofanflóðasjóði, og auðvitað hefði það verið mjög skynsamlegt, og við hefðum viljað að varnirnar yrðu komnar upp, enda er flóðið á sama stað og fyrir 40 árum,“ segir Þórdís.

Þórdís Sif Sigurðardóttir.
Þórdís Sif Sigurðardóttir.

Flóðið hefði getað orðið stærra, hefði meiri snjór verið í fjallinu. 

„Við vonumst til þess að ríkisstjórnin leggi áherslu á að laga ofanflóðavarnir í fjörðunum,“ segir Þórdís og nefnir að þessu sé einnig ábótavant á Tálknafirði og á Bíldudal.

„Þetta er stórt verkefni og það þarf að passa að það verði settir fjármunir í það. Svo það verði ekki enn þá stærra snjóflóð en það sem var í dag.“

Féll ofan í nokkra garða og nálægt húsi

Krapaflóðið féll niður rétt um tíuleytið í morgun og lenti á kyrrstæðum bifreiðum.

„Þetta fór nálægt húsum og upp að einu húsi. Ofan í nokkra garða. Við erum að fara að skoða betur aðstæður á morgun. Það eru að koma til okkar sérfræðingar frá Veðurstofu og Náttúruhamfaratryggingum.

Við erum í stöðugu sambandi við Ofanflóðasjóð til þess að ræða hvort við getum verið með eitthvað viðbragð til þess að varna því að þetta geti gerst aftur. Það er í raun okkar krafa núna, að það verði gerðar einhverjar ráðstafanir til þess að minnka hættuna á ofanflóðum.“

Þarf að endurskoða verklagið

Ekki hafði verið lýst yfir óvissustigi almannavarna á svæðinu og kom hættan því viðbragðsaðilum í opna skjöldu, þar sem lítill snjór er í fjallinu. Hættustigi var aftur á móti lýst yfir eftir að flóðið hafði farið yfir, og því var svo aflýst aftur síðar í dag.

„Veðurstofan mun skoða aðstæður núna og meta hvort það þurfi að setja öðruvísi viðmið varðandi ofanflóðahættu. Auðvitað þarf að fara ofan í þetta verklag,“ segir Þórdís en bætir við að sérfræðingur Veðurstofunnar á svæðinu hafi mikla þekkingu á málaflokknum. 

Íbúafundur verður haldinn í næstu viku að sögn Þórdísar og verður þar farið yfir ofanflóðavarnir og viðbrögð við flóðinu.

mbl.is