Miðlunartillagan ótímabær ráðstöfun

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, telur það vera ótímabæra ráðstöfun hjá ríkissáttasemjara að leggja fram miðlun­ar­til­lögu í kjara­deilu Efl­ing­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Miðstjórn ASÍ mun funda í dag til þess að fara yfir málið og má vænta viðbragða í kjölfar þess.

Kristján telur tímapunktinn sérstakan þar sem aðilar hafi ekki fengið tækifæri til þess að reyna til þrautar að ná samningum.

„Fordæmið með þessum aðgerðum er auðvitað alls ekki gott. Inngrip sem þetta er í mínum huga ekki ásættanlegt á þessum tímapunkti þar sem ekki hefur verið reynt að fara allar leiðir til þess að semja, horft á atburðarásina utan frá. Ég hefði viljað sjá að aðilar hefðu reynt til þrautar að semja, það er ekki einu sinni búið að boða til verkfalls,“ segir Kristján enn fremur.

Horfa þurfi til hagsmuna beggja aðila

Hann segir mikilvægt að horft sé til hagsmuna beggja samningsaðila þegar miðlunartillaga er lögð fram auk þeirra samþykkis.

„Í gegnum tíðina í þau fáu skipti sem miðlunartillögur hafa verið lagðar fram hefur iðulega verið reynt að horfa til hagsmuna beggja aðila. Það er eitthvað sem við verðum að geta treyst á. Það hefur jafnfram verið gert með samþykki beggja samningsaðila og málum miðlað í þeim deilum sem uppi eru,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert