Miklar raskanir á flugi Icelandair á morgun

Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Icelandair

Icelandair hefur ákveðið að aflýsa öllum komum frá Norður-Ameríku í fyrramálið vegna veðurs. Þá hefur öllu morgunflugi til Evrópu verið aflýst og þar af leiðandi komum frá Evrópu seinnipartinn, nema flugi til Tenerife og Alicante, en því verður seinkað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar kemur einnig fram að öllu innanlandsflugi hafi jafnframt verið aflýst á morgun, föstudag.

„Allir farþegar verða endurbókaðir sjálfkrafa og ný ferðaáætlun send með tölvupósti. Farþegum er bent á að fylgjast með tölvupósti og smáskilaboðum frá flugfélaginu varðandi breytta flugáætlun. Ekki er nauðsynlegt að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun henti ekki,“ segir í tilkynningunni.

Síðdegisflug verði á áætlun

Tekið er fram að gert sé ráð fyrir að síðdegisflug til Norður-Ameríku, Lundúna og Kaupmannahafnar verði á áætlun en að félagið muni fylgjast vel með veðri og upplýsa farþega ef breytingar verði.

Segir enn fremur að vegna slæmrar veðurspár hafi félagið ráðist í fyrirbyggjandi aðgerðir á þriðjudag til þess að milda áhrifin.

Hafi farþegum sem áttu bókað flug á morgun verið boðið að flýta ferðalaginu.

„Um 1.700 farþegar nýttu sér það. Upphaflega áttu um 3.700 bókað flug á þessum tíma en vegna aðgerðanna er nú gert ráð fyrir að raskanirnar hafi áhrif á um 2.000 farþega.“

mbl.is