Ríkissáttasemjari skapi stórhættulegt fordæmi

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti ASÍ, segir að með því að leggja fram miðlunartillögur sé ríkissáttasemjari að nýta til hins ýtrasta sínar valdheimildir og jafnvel að fara aðeins umfram þær. Þetta skrifar Drífa á Facebook.

Hún segir að stórhættulegt fordæmi geti skapast, þar sem þegar einu sinni sé búið að taka svona ákvörðun sé hætt við að hún verði tekin aftur og aftur.

„Með þessu er ríkissáttasemjari að nýta til hins ýtrasta sínar valdheimildir og jafnvel aðeins umfram það og þetta er stórhættulegt fordæmi fyrir deilur á hinum íslenska vinnumarkaði. Ef þetta er það sem koma skal á íslenskum vinnumarkaði er verið að draga úr möguleikum og heimildum einstakra stéttarfélaga til að ráða sínum málum sjálf og beita því eina vopni sem launafólk býr yfir, að leggja niður störf,“ skrifar Drífa.

Geti haft alvarlegar afleiðingar á vinnumarkaði

Bendir hún jafnframt á að hætt sé við því að deilan fari í enn meiri hnút og að traust til embættis ríkissáttasemjara fari minnkandi hjá launafólki á Íslandi.

Kveðst hún þeirrar skoðunar að félagar í Eflingu hefðu átt að fá að greiða atkvæði um tilboð sem lá á borðinu en að það sé eitthvað sem þurfi að gerast á félagslegum grunni.

„Ég óttast að ríkissáttasemjari hafi ekki hugsað þetta til enda. Það að ríkissáttasemjari taki sér þetta vald núna verður varla til að efla samtal um bætt vinnubrögð í samningagerð og getur haft alvarlegar afleiðingar á samskipti á vinnumarkaði til lengri tíma.“

mbl.is