Sálin grafin á Höfðabakka

Senn líður að lokum hjá Kristjáni og hans fólki á …
Senn líður að lokum hjá Kristjáni og hans fólki á Höfðabakka og hyggst hann tvíefla rekstur og sölu í verslun sinni á Sogavegi í breyttu þjóðfélagi sem flytji inn þúsundir gáma af mat þrátt fyrir að eiga nóg af honum á landi og miðum. Ljósmynd/Facebook-síða Fiskikóngsins

„Þar sem blautfiskinum sleppir á Íslandi, þar tekur latínan við,“ skrifaði skáldið á Gljúfrasteini í Brekkukotsannál. Kristján Berg Ásgeirsson, sem margir tengja strax við fiskbúðirnar Fiskikónginn, fer hins vegar ekki í neinar grafgötur með að pizzur taki við af fiskinum fremur en latínan, alltént nú til dags. Það er með trega sem Kristján lokar verslun sinni á Höfðabakka í breyttu neyslusamfélagi enda segist hann reka upp stór augu birtist fólk undir þrítugu við afgreiðsluborð hans.

„Þú ert búinn að byggja upp fyrirtæki síðan 1994, þetta var söluhæsta fiskbúð landsins í ellefu ár,“ segir Kristján í samtali við mbl.is. Sem fyrr segir lokar hann nú verslun sinni á Höfðabakka eftir áratuga rekstur svo sem ratað hefur í fjölmiðla.

„Sál mín er þarna inni, hún er grafin í kjallaranum á Höfðabakkanum svo þarna eru miklar tilfinningar,“ heldur Kristján áfram sem nú mun einbeita sér að því að færa Reykvíkingum og nærsveitarmönnum ferskan fisk yfir afgreiðsluborð Fiskikóngsins á Sogavegi í samfélagi sem horft hefur upp á kynslóðaskipti í matarvenjum.

„Get ekki látið fólkið fara“

„Það lítur vel út og bjart fram undan,“ svarar fiskikóngurinn, spurður út í framhaldið á Sogaveginum, „ég er búinn að vera að glíma við andleg veikindi vegna vinnuálags og stress og það er hluti af því að standa í þessum rekstri. Þótt mér líði ekki vel yfir Höfðabakkanum er léttir að losna við eitt vandamál,“ segir hann.

Starfsmenn Kristjáns eru 24 og liggur þá næst við að spyrja hvort sá flokkur þynnist við lokun Höfðabakkans.

„Nei,“ svarar Kristján um hæl, „ég er með þrjá fasta starfsmenn í vinnu á Höfðabakka og þegar hefur verið lítið um fisk hef ég verið að senda stelpur upp eftir til að steikja bollur og hjálpa til, en eins og staðan verður núna ætla ég mér bara að auka söluna niðri á Sogavegi þótt ekki geti allir verið þar. Ég get ekki látið fólkið fara, það er bara ekki inni í myndinni hjá mér,“ segir hann ákveðinn.

Kristján Berg, fiskikóngurinn, er löngu þekktur meðal höfuðborgarbúa sem kunna …
Kristján Berg, fiskikóngurinn, er löngu þekktur meðal höfuðborgarbúa sem kunna að meta ferskan fisk í soðið. Nú eru þó breyttir tímar og spáir Kristján fækkun sérverslana á komandi árum. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Í pistli á Facebook-síðu sinni, sem tíundaður er í fréttinni sem hlekkjuð er við hér að ofan, skrifar Kristján meðal annars að pizzu- og Cocoa Puffs-kynslóðin sé að taka yfir. Einnig nefnir hann hátt verð á fiskmörkuðum þar sem stórútgerðir „gleypi allan fisk“, að erfitt sé að manna stöður frá sjö að morgni til hálfsjö að kvöldi og svimandi verðhækkanir á öllum aðföngum, jafnvel klósettpappír.

Blaðamaður heggur eftir pizzu- og Cocoa Puffs-fólkinu umfram annað.

„Já, það vita það allir að pizzu-kynslóðin er komin. Það er ekki eðlilegt að á landinu séu fleiri pizzastaðir en fiskbúðir. Það er verið að selja fleiri pizzur og fyrir hærri upphæðir en fisk ofan í alla landsmenn. Við erum ekki fiskiþjóð lengur, við erum pizzuþjóð,“ segir fiskkaupmaðurinn sem man tímana tvenna í þessum efnum.

Hann kveður þessi skil löngu gengin yfir, fisksins og flatbökunnar það er að segja. „Ég þurfti bara að játa það fyrir sjálfum mér,“ segir Kristján og bendir á gjörbreytt umhverfi, nefnir þar stóra matvælainnflytjendur og -birgja máli sínu til stuðnings. Þar séu stærðarinnar vöruhús undir fæðutegundir sem falli að nútímasmekk landans „og 15-20 sölumenn í vinnu við að selja niðursoðnar vörur, frosnar pizzur og kanelsnúða, öll bakaríin eru að þjást“, heldur hann áfram.

Telur Kristján það hina mestu firru að flytja inn þúsundir gáma af mat miðað við þá matarkistu sem landið og miðin séu. Nánast allt grænmeti megi framleiða á Íslandi þar sem hiti sé í jörðu. „Til hvers erum við að flytja þetta allt inn? Ég skil þetta ekki,“ segir fiskkaupmaðurinn af festu.

Kristján og sonur hans, Kjartan Páll Kristjánsson, með fullt fangið …
Kristján og sonur hans, Kjartan Páll Kristjánsson, með fullt fangið af skötu fyrir nýliðna Þorláksmessu.

„Maður bara hrekkur í kút þegar maður sér fólk undir þrítugu, liggur við,“ svarar hann spurningu um hvort meðalaldur viðskiptavinahópsins fari hækkandi eftir því sem téð pizzu- og Cocoa Puffs-kynslóð haslar sér völl. „En þetta er margþætt, ég er auðvitað ekkert að segja að ég hafi endilega rétt fyrir mér en þetta er bara mín skoðun og svo hefur einhver annar aðra skoðun,“ játar Kristján.

Heilbrigðiseftirlitinu uppsigað við inniskó

Kristján fékk á dögunum athugasemd frá heilbrigðiseftirliti við úttekt á Höfðabakka sem eftirlitið orðaði sem „aðkallandi frávik/ábendingar“. Hvað var þar á ferð?

„Ég er að framleiða matvæli og þá getur gengið á ýmsu. Fyrir mörgum árum bannaði karlinn frá heilbrigðiseftirlitinu mér að flaka óslægðan fisk á sama borði og slægðan. Það hefur verið gert í hundrað ár og er gert enn í fiskvinnslum landsins. Það er þó alltaf eitthvað sem betur má fara og ég fagna heilbrigðiseftirlitinu, það er gott að hafa eftirlit,“ segir Kristján.

Sanngirni verði þó alltaf að ráða ferðinni að hans mati og greinir hann frá athugasemdum eftirlitsins sem honum þóttu ómaklegar. „Á síðustu skýrslu kemur mynd af inniskóm þar sem starfsmaður hafði farið úr inniskónum þegar hann var að flýta sér upp í vinnslu og skónum var ekki raðað alveg hundrað prósent. Þá kemur mynd af inniskónum og skrifað þar við að þyrfti að taka til. Hvað kemur það heilbrigði vörunnar við?“ spyr Kristján og hækkar róminn örlítið til áherslu.

„Þú sérð það bara þegar þú kemur inn í fyrirtækið mitt að það er vel rekið, hreint og fínt og ekkert vesen, nákvæmlega eins og þegar þú labbar inn á veitingastað og finnur fljótlega hvort þú treystir honum til að elda fyrir þig hamborgara eða ekki,“ heldur Kristján áfram og bætir því við að heilbrigðiskerfið sé orðið býsna flókið að hans viti.

Húsmóðir í Grafarvogi eða bollur í Bónus

„Nú eru mörg heilbrigðiseftirlit, þú ert með Matvælastofnun, MAST, svo ertu með Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og mörg fleiri, allt í örfárra kílómetra radíus. Uppi á Höfðabakka heyri ég undir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þegar ég sel húsmóðurinni í Grafarvogi fisk. En þegar ég ætla að selja bollur í Bónus eða á leikskóla þá heyri ég undir eftirlit MAST. Þannig að ég er með tvö heilbrigðiseftirlit á herðum mér uppi á Höfðabakka. Hvaða rugl er í gangi og hver borgar þetta allt? Þrjú hundruð þúsund manna samfélag með tugi heilbrigðiseftirlita í gangi,“ segir Kristján af eftirlitsmálum þessum.

Kristján hefur fengist við ýmiss konar rekstur um dagana og …
Kristján hefur fengist við ýmiss konar rekstur um dagana og brennt kertið í báða enda í streitu og keyrslu eins og hann fékk að finna fyrir nýlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í framtíðina og næstu skref svarar hann því til að þar sé einfalt mál á ferð. Hann loki á Höfðabakkanum og auki söluna í verslun sinni á Sogavegi. „Það er framtíðin og ég held að framtíðin sé björt þar. Sú búð er miðsvæðis og það eru engir nágrannar, þetta er sem sagt ekki inni í blokk eða verslunarmiðstöð þannig að fólk finni fisklykt.

Það þarf bara að styrkja fiskverslun og heilbrigðiseftirlit og stjórnvöld þurfa að vinna með okkur í því þannig að við getum flakað fisk í Reykjavík, það er verið að banna manni að flaka fisk. Ég held að fiskbúðum eigi eftir að fækka verulega næstu tíu ár og bara verslunum almennt, stórmarkaðirnir eru að gleypa þetta eins og „kvótagarkarnir“ eru að gleypa kvótann með húð og hári,“ segir Kristján og vísar þar í rússnesku athafnamannastéttina sem þar kallast oligarkar og klifu til metorða með ýmsum hætti við fall Sovétríkjanna.

„Hér mætti einfaldlega vera meiri skipting á auðnum og meira koma til samfélagsins. Ef ég þarf að loka Sogaveginum líka þá bara geri ég það, ég er ekkert hræddur við að taka ákvarðanir. Ég þarf fyrst og fremst að hugsa um sjálfan mig og líf mitt og heilsu og mína fjölskyldu. Ég geri bara mitt besta og ef það er ekki nóg þarf bara einhver annar að taka við,“ segir Kristján Berg Ásgeirsson að lokum, fiskikóngurinn sem enn ber sína kórónu þrátt fyrir boðaföll í lífsins ólgusjó.

mbl.is