Skeifan breytist á næstu áratugum

Þórdís Lóa ræddi við mbl.is um skipulagið í Skeifunni.
Þórdís Lóa ræddi við mbl.is um skipulagið í Skeifunni.

„Ég átti fyrir jól fund með þó nokkuð mörgum rekstraraðilum Skeifunnar, og þá sérstaklega þessum parti þar sem að mesta traffíkin er núna – í kringum Elko og Krónuna, Pfaff og niður að Hagkaupum,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, um tillögu meirihlutans um að bæta umferðarmál Skeifunnar.

Tillagan, sem Pawel Bartozsek varaborgarfulltrúi Viðreisnar talar fyrir, beinist að því að beygjuvasa verði komið fyrir við nýjar verslanir Elko og Krónunar í Skeifunni 19, þar sem Myllan var áður til húsa.

Skeifan mörgum kær

Óhætt er að segja að tillagan hafi vakið mikil viðbrögð, ýmist góð eða slæm, og segir Þórdís Lóa ljóst að Skeifan sé mörgum kær. Breytingin sé þó aðeins til skamms tíma þar sem enn sé langt í land þegar kemur að heildarskipulagi Skeifunnar.

„Áhrifin eru það mikil að okkur þótti mikilvægt að við gætum brugðist við strax, þó að það væri til skamms tíma,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mat þeirra sem sátu fundinn að ekki væri lausn í því að ráðast í heildarskipulag á svæðinu öllu.

„Það er fram undan, en það er ekki tímabært akkúrat núna.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar. mbl.is/Ágúst Óliver

Voða lítið að gerast inni í Skeifunni

„Þetta var góður fundur. Allir mjög lausnamiðaðir,“ segir Þórdís Lóa um fundinn og bætir við að mikill áhugi hafi verið hjá rekstraraðilum um framtíð Skeifunnar.

„Við erum komin með glænýjar verslanir þarna sem eru mjög vinsælar og eru akkúrat þar sem hefur ekki verið mikil svona traffík áður. Umferðarteppur sem sköpuðust á ákveðnum tíma dags, sem höfðu meiri áhrif inni í Skeifu en var fyrirséð.

Það er ákveðið rammaskipulag fyrir Skeifuna og það vita allir að Skeifan mun á næstu áratugum breytast,“ segir hún og nefnir að meðan mikið sé að breytast í kring um hana sé voða lítið að gerast inni í Skeifunni sjálfri.

Þar megi nefna nýlega uppbyggingu á Grensásvegi, fyrirhugaða þjóðarhöll, uppbyggingu á Orkureit og Heklureit, Borgarlínu á Suðurlandsbraut og margt annað.

Nýjar verslanir Krónunnar og Elko opnuðu þar sem Myllan var …
Nýjar verslanir Krónunnar og Elko opnuðu þar sem Myllan var áður til húsa síðasta sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við förum öll í Skeifuna“

Þórdís Lóa segist skilja að svæðið sé mörgum mikilvægt, Reykvíkingum sé flestum „annt um“ Skeifuna.

„Ég er nú ein af þeim, mér finnst ég nánast alin upp í henni. Hún er búin að vera mitt helsta þjónustusvæði, hef alla tíð búið hér uppi í Árbæ og Breiðholti – við förum öll í Skeifuna.

Ég nota hana bæði mikið á bíl og líka mikið á hjóli. Maður finnur alveg strax – þetta er hvorki vænt fyrir bíla og náttúrulega ekki vænt fyrir fólk á öðrum ferðamátum.“

Nú, þegar flæði er meira inn á svæðið og á mismunandi ferðamátum finni maður meira fyrir því hversu gamalt skipulagið er.

„Það er ekki mikill nútími í Skeifunni þrátt fyrir að það séu komnar nútímalegar búðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert