Telur ríkissáttasemjara hafa brotið lög

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir ljóst að ríkissáttasemjari hafi brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Hún hafi frétt af miðlunartillögunni frá þriðja aðila og ríkissáttasemjari hótað henni aðgerðum ef hún mætti ekki til fundar.

„Við höfnum lögmæti þessarar tillögu sem ríkissáttasemjari hefur lagt fram. Hún er lögð fram án nokkurs samráðs við Eflingu. Atburðarásin er með svo miklum ólíkindum að það er erfitt fyrir mig á þessum tímapunkti að ná utan um það sem gerst hefur,“ segir Sólveig.

Samkvæmt lögum beri að hafa samráð

„Í okkar huga er ljóst að ríkissáttasemjari hefur brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Brotið er fólgið í því að ekkert samráð var haft við Eflingu en í lögunum þá ber að viðhafa samráð við deiluaðila í aðdraganda þess að ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu.“

Sólveig bendir á að með miðlunartillögunni sé eingöngu verið að þröngva upp á Eflingu tilboði SA. Atburðarásin sé hreinlega ótrúleg og að ríkissáttasemjari hafi ekki verið tilbúinn til þess að hlusta á nein rök.

„Atburðarásin er ótrúleg, seint í eftirmiðdegi í gær fæ ég vitneskju frá þriðja aðila að ríkissáttasemjari sé að ræða við aðila ótengda Eflingu og að hann hyggist í samráði við SA leggja fram miðlunartillögu. Í kjölfar þess að mér berst þessi vitneskja þá sendi ég tölvupóst til ríkissáttasemjara þar sem hann segist vera að vinna miðlunartillögu, setur mikla tímapressu á mig og formann samninganefndar.

Hann hlustar ekki á rök að ég þurfi tíma til að kalla fund og hótar mér að ef ég komi ekki á fund þá muni hann grípa til aðgerða. Þetta er allt til í tölvupóstsamskiptum og einnig áttum við samtal,“ segir Sólveig.

mbl.is

Bloggað um fréttina