„Það er enginn að fá neitt gefins“

Alexandra Briem ræddi við mbl.is um sundlaugartúnið.
Alexandra Briem ræddi við mbl.is um sundlaugartúnið.

Alexandra Briem, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir að Reykjavíkurborg sé að endurheimta mikið borgarland, með því að selja nokkrum lóðareigendum við Einimel landspildu af sundlaugartúninu við Vesturbæjarlaug, meðal annars til þess að forðast harðvítugar deilur fyrir dómstólum.

„Það liggur fyrir að girðingarnar eru að færast innar og við erum að endurheimta mikið borgarland. Það er enginn vafi um það,“ segir Alexandra.

Sundlaugartúnið.
Sundlaugartúnið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lóðirnar stækka um 236 fermetra

Með samkomulaginu verður girðing við lóðirnar, sem nær 14 metra inn á borgarlandið, fjarlægð og þrír lóðareigendur kaupa land sem nemur allt að 3,1 metrum inn að sundlaugartúninu.

Samtals stækka lóðirnar þrjár um 236 fermetra við breytingu deiliskipulagsins.

Hefði tekið langan tíma að standa í dómsmáli

Hefði ekki verið hægt að taka girðinguna burt og láta svæðið skiptast eftir gildandi deiliskipulagi?

„Mögulega. En vegna þess hve lengi sú staða hefur verið, þá hefði það alltaf getað lent fyrir dómstólum, tekið langan tíma og verið erfitt.

Það er að mörgu leyti ágætis aðferðarfræði að ná sáttum og beita meðalhófi. Það er enginn að fá neitt gefins. Fólki bauðst að fá að borga fyrir að stækka sína lóð. Girðingin mun aldrei ná lengra inn á borgarlandið en hún nær nú.“

Svarta punktalínan sýnir ný lóðamörk en rauða punktalínan gömlu lóðamörkin. …
Svarta punktalínan sýnir ný lóðamörk en rauða punktalínan gömlu lóðamörkin. Sundlaug Vesturbæjar er merkt bláum lit en hús við Einimel rauðum lit. Skjáskot/Deiliskipulagsuppdráttur Vesturbæjarlaugar

Óvíst með lögfræðilegt álit

Aðspurð segist Alexandra ekki vita hvort lögfræðilegs álits hafi verið aflað um málið og líkur á því að borgin biði lægri hlut.

„En þegar eitthvað hefur verið með einhverjum hætti í mörg ár, þá er alltaf aðeins erfiðara að sækja það. Ég held það sé ágætt að leysa þetta svona. Ég held að við hefðum alltaf unnið á endanum. En síðan er spurning hvort maður vildi fara í langa og harðvítuga deilu, sem kostar tíma og peninga, þegar það er hægt að leysa málin með tiltölulega góðri sátt.“

Um­hverf­is- og skipu­lags­ráð samþykkti í gær að minnka lóð sund­laug­ar­túns­ins svo­kallaða við Vest­ur­bæj­ar­laug og færa lóðarmörk ein­býl­is­húsa við Eini­mel 18-26 út, sem nem­ur 3,1 metra. Tillagan verður tekin fyrir í borgarráði í næstu viku að sögn Alexöndru.

mbl.is