„Þetta er skipbrot viðræðna“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sést hér á ljósmynd með …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sést hér á ljósmynd með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Ríkissáttasemjari boðaði þau á fund í Karphúsinu kl. 10.30 í morgun þar sem hann kynnti miðlunartillöguna. mbl.is/Hákon

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að miðlunartillaga sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kynnti í kjaradeilu SA og Eflingar í morgun sé vonbrigði. 

Hann segir að tillagan sýni að báðum aðilum hafi mistekist í samningaviðræðunum.

„Þetta er skipbrot viðræðna. Það hefur verið afstaða Samtaka atvinnulífsins í áratugi að kalla ekki eftir inngripum ríkisvaldsins í kjaradeilur. Og það á líka við í þessari deilu okkar við Eflingu,“ segir Halldór í samtali við mbl.is. 

Hann segir jafnframt að ríkissáttasemjari sé með þessu að ganga á rétt beggja samningsaðila til að ná kjarasamningi.

„Ef ég skil hann rétt á blaðamannafundinum þá hefur hann metið sem svo að þessi deila væri í óleysanlegum hnút og það yrði að höggva á hann.“

Hvað varðar fyrirhuguð verkföll, þá segir Halldór að það hafi verið hans trú að Eflingu hefði ekki orðið ágengt með slíkum aðgerðum.

„Við höfum talað alveg skýrt um það að verkalýðsfélög sem boða verkföll og framkvæma verkföll á umbjóðendur Samtaka atvinnulífsins fyrirgeri sér afturvirkni kjarasamninga. En núna er ríkissáttasemjari að bjóða þessa sömu afturvirkni sem er miður og ég er ósáttur við,“ segir Halldór Benjamín.

Næstu skref séu að fara yfir tillöguna og kynna hana fyrir fyrirtækjum. Líklega verði boðað til kynningarfundar í dag eða á morgun. 

Ríkissáttasemjari boðaði þau Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, á fund í Karphúsinu kl. 10.30 í morgun þar sem hann kynnti miðlunartillöguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert