Viðsnúningur lögreglu í máli Ísidórs

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Natanssonar við fyrirtöku málsins í …
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Natanssonar við fyrirtöku málsins í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Öfugt við það sem hefur verið haldið fram í málinu, af hálfu lögreglunnar, alveg fram að útgáfu ákæru er honum ekki ætlaður neinn ásetningur til að fremja neins konar hryðjuverk,“ segir Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður Ísidórs Nathanssonar sem ákærður hefur verið fyrir aðild að undirbúningi hryðjuverka. 

Segir í ákærunni að hann hafi með orðum annars vegar og gjörðum hins vegar ýtt undir og stuðlað að undirbúningi hryðjuverka. 

Fóru fram á frávísun

„Það verður algjör viðsnúningur þarna á einhverjum tímapunkti og hann er í raun settur skör neðar. Það er einfaldlega vegna þess að málið hefur ekki leitt neitt í ljós sem rennir stoðum undir fullyrðingar lögreglunnar fram að þeim tíma. Hann er þá flokkaður með mjög óljósum hætti sem einhverskonar hlutdeildarmaður í tilraunarbroti Sindra [Snæs Birgissonar].“

Munnlegur málflutningur um form ákæru á hendur Ísidóri og Sindra Snæ fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, þar sem lögmenn beggja ákærðu fóru fram á frávísun á þeim brotum er snúa að undirbúningi hryðjuverka vegna óskýrs orðalags í ákæru. 

Einar Oddur segir þrátt fyrir að dómari hafi haft frumkvæði að athugun á formhliðinni, hefði líklega komið til frávísunarkröfu að hálfu beggja ákærðu síðar. 

Segir þversögn í ákæru

„Við verðum að sjá núna hvernig dómari metur formhliðina á málinum hvað varðar tilvísun til tiltekinna verknaðaraðferða, undirbúningsatriða og hvort að háttsemi ákærðu sé nægilega lýst í ákæruskjalinu. Um það mun þessi úrskurður fjalla.“

Í ákæru er tilgreint að hlutdeild Ísidórs sé metin vegna samskipta sem hann átti við Sindra Snæ á samskiptaforritinu Signal annars vegar og hins vegar með aðkomu að framleiðslu skotvopna. 

„Það vekur auðvitað ákveðna furðu að samhliða þessum framleiðsluæfingum þeirra, sem á að vera liður í undirbúningi hryðjuverka, þá er gefið að sök að hafa ætlað að selja vopnin,“ segir Einar Oddur. 

mbl.is