Klæðningu bjargað á Granda

Bálhvasst hefur verið úti á Granda í dag.
Bálhvasst hefur verið úti á Granda í dag. mbl.is/sisi

Gul viðvör­un hefur verið í gildi víða um land í dag vegna veðurs, meðal annars á höfuðborg­ar­svæðinu.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út eftir hádegið í dag til að bjarga hluta klæðningar sem var að fjúka af húsi úti á Granda. Klæðningunni var bjargað og þá var unnin fyrirbyggjandi vinna við að styrkja þá hluta klæðningarinnar sem ekki höfðu losnað.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir aðeins farið að slá á vindinn vestanlands og að það dragi hægt og rólega úr honum áfram. Hann segir gula viðvörun á suðvesturhorni landsins vegna veðurs hafa dottið út síðdegis í dag en áfram verði gul viðvörun í gildi fram á kvöld á Austurlandi. 

Ekki er langt að bíða næstu lægðar að sögn Haraldar. Hann segir úrkomu frá lægð morgundagsins koma yfir vestanlands í nótt og á morgun verði slydda og rigning einkum sunnan og vestanlands með strekkingsvindi um það bil 8-15 metra á sekúndu.

Haraldur býst við að það hlýni aðeins og víða fari hitastig upp í 5-7 gráður á morgun. Hann segir um skammvinna hláku að ræða og að það megi búast við kólnandi veðri aftur annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert