Sjoppulegt söluferli

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Söluferli á hlut ríkisins í Klakka ásamt skuldakröfum var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur lýst sem sjoppulegu. Þetta kom fram í vitnisburði Mána Atlasonar fyrir dómnum en hann kom fram fyrir hönd Kviku banka sem starfsmaður lögfræðisviðs og til aðstoðar tekjusviðs.

Aðalmeðferð í máli Frigusar II ehf. á hendur Lindarhvoli og íslenska ríkinu fór fram í vikunni. Lindarhvoll hafði til sölumeðferðar hlut ríkisins í Klakka ehf. og skuldakröfur, en Frigus II ehf. í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssonar og Sigurðar Valtýssonar, var einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptilboð í eignina. Það gerði Frigus II ehf. í gegnum Kviku banka sem gert hafði samning um að miðla eigninni til félagsins ef af kaupunum yrði.

Forsvarsmenn Frigus II ehf. töldu sig hafa lagt fram hæsta tilboðið og þannig hefði félagið verið hlunnfarið í söluferlinu þegar tilboði annars félags, BLM fjárfestinga ehf., var tekið. Höfðaði Frigus II ehf. skaðabótamál í kjölfarið.

Tilfinningin að tilboðið væri til trafala

Máni sagði hefðbundið söluferli á óskráðum eignum vera með þeim hætti að seljandi reyndi að fá verðmat á eignina sem við ætti og myndi útbúa sölukynningu og svo annað hvort auglýsa eða reyna að hafa samband að fyrra bragði við mögulega kaupendur. Venjulega væri reynt að draga menn að borðinu og reynt að selja mönnum eignina. Hann sagðist hafa haft á tilfinningunni að tilboð Kviku banka væri til trafala. Þá sagði hann bankann ekki hafa fengið neinar fjárhagsupplýsingar og engin uppgjör eða annað.

Kvika banki gerði athugasemdir við söluferlið að sögn Mána. Hann sagði upplýsingar hafa borist bankanum um að yfirtökutilboð BLM fjárfestinga ehf. hafi verið hækkað eftir að tilboðið barst frá Kviku banka. Þá sagði hann bankann ekki hafa talið samskipti við og upplýsingagjöf frá Lindarhvoli með eðlilegum hætti.

Stóð aldrei til að upplýsa Lindarhvol

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka á þeim tíma sem sölumeðferðin stóð yfir, sagði að Kvika banki hafi ekki tilgreint hvaða félag eða hvaða aðilar hafi í raun staðið að baki kauptilboði bankans. Hann sagði að aldrei hafi staðið til að upplýsa Lindarhvol um það. Dómsformaður gerði þetta atriði að sérstöku umtalsefni við Ásgeir fyrir þær sakir að ef banki komi fram fyrir hönd viðskiptavinar sé víðtekin venja að seljandi sé upplýstur um slíkt.

Þá kom fram í vitnisburði Ásgeirs að í ferlinu hafi komið til tals að Kvika banki myndi eignast 9,9% eignarhlut til þess að þurfa ekki að tilkynna sérstaklega um viðskiptin til Fjármálaeftirlits, sem viðskipti með virkan eignarhlut samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki.

Félagið Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, …
Félagið Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, fulln­ustu og sölu á eign­um rík­is­sjóðs á eftirhrunsárunum. Ljósmynd/Brynjar Gauti


Starfsfólk Klakka bauð í hlutinn

Komið hefur í ljós að starfsfólk Klakka bauð í hlut ríkisins í Klakka ásamt skuldakröfum í gegnum tvö félög. Félagið sem var talið hafa átt besta tilboðið, BLM fjárfestingar ehf., var leitt af Magnúsi Scheving Thorsteinssyni, forstjóra Klakka á þeim tíma. Þá sendi félagið Ásaflöt ehf. inn tilboð en það var í eigu Magnúsar, Brynju Daggar Steinsen rekstrarstjóra Klakka og Jóns Arnar Guðmundssonar fjármálastjóra félagsins.

Magnús Scheving Thorsteinsson, þáverandi forstjóri Klakka, viðurkenndi við skýrslutökur fyrir dómi að hafa haft upplýsingar umfram aðra aðila sem buðu í eignina. Á meðal þeirra upplýsinga sem hann hafði var hálfsársuppgjör Klakka.

Athygli vakti að Esther Finnbogadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og núverandi stjórnarformaður Lindarhvols og eini aðalmaður félagsins í stjórn, virtist ekki muna vel það sem leit að málefnum Klakka eða Lindarhvols frá þessum tíma. Esther var varamaður í stjórn Lindarhvols á þeim tíma sem Klakki var í sölumeðferð en hún sat alla stjórnarfundi sér til upplýsingar.

Hún kvaðst aðspurð ekki muna hvort hugsanlegt vanhæfi hafi verið rætt innan stjórnar Lindarhvols eða hvort það væri óeðlilegt að einhverju leyti að starfsfólk Klakka stæði að baki tilboðum í hlut ríkisins í Klakka.

Man ekki hvað Steinar Þór gerði

Einkum bar Esther oft við minnisleysi eða þekkingarleysi þegar orð og gjörðir Steinars Þórs Guðgeirssonar, stjórnarmanns í Klakka og eins konar framkvæmdastjóra Lindarhvols á þessum tíma, voru borin upp við hana.

Hún sagðist aðspurð ekki muna hvort Steinar Þór hafi kynnt það fyrir stjórn Lindarhvols að á bakvið tvö tilboð stæði þáverandi forstjóri Klakka.

Þá kvaðst Esther ekki muna hvort Steinar Þór hafi komið á framfæri upplýsingum um Klakka við stjórn Lindarhvols eða kynnt stjórninni nauðasamning félagsins og bar því við að hún muni ekki hver hafi gert hvað. Þá sagðist hún hvorki muna hver gerði drög að auglýsingu vegna söluferlisins né hver gerði drög að sölukynningunni.

Steinar Þór Guðgeirsson
Steinar Þór Guðgeirsson mbl.is/RAX

Var upplýsingagjöf ábótavant

Esther var af lögmanni stefnanda spurð út í upplýsingagjöf í söluferlinu. Lögmaðurinn spurði hvort ekki væri áhugavert að 23 aðilar hafi óskað eftir nánari upplýsingum um hlut ríkisins í Klakka og skuldakröfurnar en aðeins hafi borist þrjú tilboð. Þá spurði lögmaðurinn hvort ekki hefði verið nærtækara að útskýra ýmis atriði og að birta fjárhagsupplýsingar Klakka.

Hún sagðist ekki muna hvort það hefði komið til umræðu að útskýra þessi atriði eða birta fjárhagsupplýsingar Klakka. Þá sagðist Esther ekki heldur muna hvort til álita hefði komið að birta nauðasamning Klakka.

Esther sagðist aðspurð hafa hitt Steinar Þór í Seðlabankanum fyrir einhverjum vikum til að rifja upp málið. Hún sagði Þórhall Arason fyrrverandi stjórnarformann Lindarhvols einnig hafa setið fundinn ásamt Hauki Benediktssyni og Ásu Ólafsdóttur sem sat fundinn í gegnum síma.

Að lokum var Esther spurð, af lögmanni stefnanda, hvort hún hafi talað við Steinar Þór áður en hún bar vitni fyrir dóminum í gær. Esther svaraði því neitandi.

Steinar Þór Guðgeirsson bar vitni á miðvikudag. Mbl.is var aðeins við vitnaleiðslur í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert