Skorar á sáttasemjara að draga tillöguna til baka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn VR gerir alvarlegar athugasemdir við inngrip ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. 

Þetta segir í ályktun á vef VR en stjórnin bætist þar með í hóp fjölda félaga sem hafa gert athugasemd við miðlunartillöguna sem ríkissáttasemjari lagði fram í gær. 

„Með því að leggja fram ótímabæra miðlunartillögu hefur ríkissáttasemjari slegið verkfallsvopnið úr höndum stéttarfélags sem hefur þegar hafið atkvæðagreiðslu um boðun aðgerða,“ segir í ályktuninni. 

VR skorar því á ríkissáttasemjara að draga tillöguna til baka og virða þannig samningsrétt stéttarfélaga. 

mbl.is