Telur aðkomu dómstóla nauðsynlega

Sólveig Anna og félag hennar telja nauðsynlegt að dómstólar kveði …
Sólveig Anna og félag hennar telja nauðsynlegt að dómstólar kveði upp úr um lögmæti aðgerða ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur nauðsynlegt að dómstólar leysi úr lögmæti aðgerða ríkissáttasemjara sem stjórn félags hennar telur ólögmætar, það er miðlunartillögu sáttasemjara í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Vísar formaðurinn þar í skriflegt erindi Eflingar til embættis ríkissáttasemjara frá því í gær sem hún lét mbl.is í té.

Kemur þar fram að Efling telji ríkissáttasemjara ekki hafa fullnægt skilyrðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur og geti miðlunartillagan því ekki talist lögmæt í skilningi laganna. Það sama eigi við um boðaða framkvæmd og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna en Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari bíður nú eftir félagaskrá Eflingar, svo sem fram hefur komið, en hún hefur ígildi kjörskrár við atkvæðagreiðsluna.

Krefst upplýsinga um samskipti

Í erindi Eflingar kemur fram að félagið telji dómstólaleiðina nauðsynlega og segir Sólveig Anna við mbl.is að þar yrðu almennir dómstólar fyrir, ekki Félagsdómur.

Að lokum krefst Efling þess í erindi sínu að fá allar fyrirliggjandi upplýsingar um öll samskipti, sem ríkissáttasemjari og starfsmenn embættis hans hafa átt við deiluaðila og aðra, sem varða samráð í tengslum við undirbúning og ákvarðanatöku um tillöguna.

Óskar Efling þar eftir öllum fyrirliggjandi skráningum um samskipti við téða aðila á fundum, símleiðis, með smáskilaboðum, í tölvupósti, bréflega eða með öðrum hætti og vísar félagið þar til upplýsingalaga kröfu sinni til stuðnings.

mbl.is