Beit lögreglumann

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Eggert

Einstaklingur var handtekinn vegna hótana og líkamsárásar í Hlíðunum í gærkvöldi. Þegar afskipti voru höfð af honum, beit viðkomandi lögreglumann. Var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Einn skemmtistaður á von á kæru vegna réttindaleysi dyravarðar, en lögregla fór í eftirlit á nokkra veitinga- og skemmtistaði í nótt. 

Þá var tilkynnt um þrjú þjófnaðarbrot úr verslunum. Í öllum tilfellum var hinn grunaði látinn laus að lokinni skýrslutöku. 

Ekið á gangandi vegfaranda

Ekið var á gangandi vegfaranda í miðborg Reykjavíkur. Var ökumaður bifreiðarinnar handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Meiðslu voru minniháttar en hinn slasaði var þó fluttur á slysadeild til aðhlynningar. 

Annar einstaklingur var fluttur á slysadeild til aðhlynningar, eftir að hafa fallið af rafhlaupahjóli. 

Svaf á stigaganginum

Tilkynnt var um sofandi einstakling á stigagangi fjölbýlishúss í Árbæ. Lögregla var kölluð til og vakti viðkomandi, sem hélt svo sína leið. 

Í nótt voru skráningarmerki tekin af nokkrum bifreiðum vegna vanrækslu á aðalskoðun. Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna, og tveir þar sem ökumenn reyndust réttindalausir. 

mbl.is