Ísland er klárlega á listanum

Game of Thrones-leikarinn Iain Glen er mjög hrifinn af Íslandi, …
Game of Thrones-leikarinn Iain Glen er mjög hrifinn af Íslandi, en lenti þó í miklu óveðri síðast þegar hann kom og var veðurtepptur allan tímann. Ljósmynd/Juliette Rowland

Glen er staddur á hótelherbergi einhvers staðar í Suður-Afríku þar sem hann er nú í tökum. Við fundum stund milli stríða til að spjalla í myndsímtali yfir hálfan heiminn og ræddum um heima og geima; um langan ferilinn, um Game of Thrones-ævintýrið og um leik hans í íslensku kvikmyndinni Napóleonsskjölunum sem frumsýnd verður hér á landi næstkomandi föstudag. Enga stjörnustæla var að finna hjá þessum indæla manni, heldur þvert á móti. Glen hallaði sér aftur í sætinu, órakaður í rauðum stuttermabol, og það kjaftaði á honum hver tuska. Og afríska sólin skein inn um gluggann.

Ísland er í uppáhaldi

Vinnan þín leiðir þig augljóslega víða um heim. Áttu þér uppáhaldsland?

„Ísland!” segir Glen hátt og snjallt og blaðamaður segir það klárlega vera rétta svarið.

Glen segist vel kunna að meta þau forréttindi að fá að ferðast og sjá heiminn í gegnum vinnuna. 

„Það opnar augu manns að ferðast en ég sé oft löndin á annan hátt en ferðamaður þar sem ég vinn með heimamönnum og dvel oft töluverðan tíma á stöðunum. Ég hef verið mjög heppinn. Og ef ég tala um uppáhaldsstaði er Ísland klárlega á listanum. Ég hef unnið þar fimm sinnum; í fyrst sinn var ég þar að vinna að myndinni Tomb Raider með Angelinu Jolie og Daniel Craig fyrir mörgum árum. Við hentumst um allt á jöklum og lónum. Svo fór ég þangað nokkrum sinnum í tökur á Game of Thrones og einnig hef ég leikið þar í fleiri kvikmyndum, meðal annars Napóleonsskjölunum.“ 

Lentum í óveðrinu mikla

Í desember síðastliðnum hugðist Glen eiga hér á landi nokkurra daga vetrarfrí, en það fór öðruvísi en lagt var upp með. Áður en hann lýsir svaðilförinni talar hann um hvað það sé við Ísland sem heilli sig. 

„Landslagið á Íslandi er afar frábrugðið öllu öðru. Landið er svo fallegt; mikil auðn og þessi ótrúlega birta. Þegar ég er þarna finnst mér ég vera einn með náttúrunni. Manni finnst landið vera svo ósnortið af ágangi manna. Ég fer ekki eingöngu til Íslands vegna vinnu, heldur líka í frí, en ég var einmitt staddur þarna rétt fyrir jólin, ég og kona mín og tvö yngstu börnin mín. Við lentum í óveðrinu mikla sem varði í fjóra daga og lentum í svakalegu roki. Við ætluðum að vera þarna í þrjár nætur með það fyrir augum að gista nokkrar nætur á gististaðnum Torfhúsi sem er við Gullna hringinn, með stoppi í Bláa lóninu. Það sem gerðist fyrst var að við urðum veðurteppt í Bláa lóninu í tólf tíma. Við enduðum í Reykjavík klukkan þrjú um nóttina og þaðan drifum við okkur í Torfhús. Þar gerðum við bókstaflega ekkert því allir vegir voru lokaðir. Við fórum ekki á hestbak, ekki að synda í hellum, ekki á vélsleða á jöklum; við gerðum ekkert! Vorum bara föst inni og það þurfti meira að segja að ferja okkur á milli húsa þrisvar á dag til að komast í matinn,“ segir hann og brosir. 

„Þetta var mjög dramatískt og í raun var ferðalagið ónýtt að mörgu leyti, en það er eitthvað stórkostlegt við það að vera á valdi náttúrunnar. Það minnir okkur mannfólkið á að við getum ekki stjórnað öllu, ef maður hugsar þetta heimspekilega. Ísland býr yfir þessu valdi,“ segir hann og segist ekki munu láta þessa reynslu aftra sér frá frekari Íslandsheimsóknum.

Ítarlegt viðtal er við Iain Glen í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert