Þá væri engin mynd til frá Súðavík

Myndin góða sem tekin var við leitina í Súðavík.
Myndin góða sem tekin var við leitina í Súðavík.

Fjórir af reyndustu blaðaljósmyndurum landsins, Einar Falur Ingólfsson, Gunnar V. Andrésson, Páll Stefánsson og Ragnar ­Axelsson, hafa þungar áhyggjur af framtíð fagsins enda hafi yfirvöld lítinn skilning á hlutverki þeirra – að skrá Íslandssöguna. Allskyns tálmar og hindranir hafi verið settir upp í seinni tíð.

Ragnar Axelsson.
Ragnar Axelsson. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson


Einar Falur segir fyrst hafa borið á þessum hindrunum í snjóflóðinu í Súðavík 1995. Þar hafi sýslumaður upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um að leyfa fréttaljósmyndurum ekki að taka myndir á vettvangi meðan leitað var að fólki sem var saknað. Ragnar náði á hinn bóginn að setja filmu í vél eins björgunarsveitarmannsins sem síðan birtist á baksíðu Morgunblaðsins. „Hugsaðu þér, hefði hann ekki gert það þá væri engin mynd til af þessum stórviðburði. Þessi mynd hefur verið notuð víða síðan,“ segir Einar Falur.

Gunnar V. Andrésson.
Gunnar V. Andrésson.


Fagmenn trufla ekki

Gunnar segir sýslumann hafa borið því við að hann vildi ekki að björgunarsveitarmenn yrðu truflaðir við leit sína. „Það er alveg skiljanlegt en ekki þarf að óttast það frá hendi fagmanna með víðtæka reynslu af allskonar hamförum,“ segir Gunnar og Ragnar bætir við: „Björgunarsveitarmenn voru að leita en hlutverk okkar var allt annað, meðal annars að sýna hetjudáð þeirra sjálfra.“

Páll segir það nöturlega staðreynd að snjóflóðin hafi ekki verið skrásett sem skyldi. „Það verður ekki aftur tekið.“

Einar Falur Ingólfsson.
Einar Falur Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon


Bara versnað og versnað

Fjölmiðlar funduðu stíft með Almannavörnum eftir þetta en eigi að síður var aðgengi engan veginn nógu gott í snjóflóðinu á Flateyri um haustið, að dómi Einars Fals. Ragnar segir sýslumann þó hafa greitt götu fréttamanna betur þar en í Súðavík. „Síðan hefur þetta bara versnað og versnað,“ segir Einar Falur. „Ástæðan er alræði Almannavarna, einfaldlega vanhæfra manna. Stofnanir verða að skilja að fréttaljósmyndarar eru ekki hver sem er og hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Sjálfsagt er að þau í Skógarhlíðinni veiti okkur upplýsingar en það er hlutverk atvinnufjölmiðlamanna að upplýsa almenning og sýna fólki hvað í raun og veru er að gerast.“ 

Páll Stefánsson.
Páll Stefánsson. Ljósmynd/Rax


Ragnar segir ljósmyndara oft setta í meiri hættu en ella vegna téðra hindrana enda þurfi þeir í auknum mæli að leita leiða til að komast að atburðum bakdyramegin. „Það er góður punktur,“ segir Einar Falur. „Að hugsa sér að fréttamenn þurfi að smygla sér inn til að gera sína skyldu.“

Allir bera þeir kvíðboga fyrir framtíðinni. „Skaðinn er þegar skeður. Fjölmiðlamenn í dag eru allir meira og minna niðri á stétt,“ segir Gunnar.

Ragnar tekur undir þetta: „Ísland er orðið yfirfullt af fólki sem ratar ekki heim nema eftir einhverri reglugerð.“

Páll bendir á að Ísland sé og verði eldfjallaland. „Hvað ef Hekla byrjar að gjósa? Þá er ég hræddur um að við verðum stöðvaðir á Sandskeiði,“ segir hann.

„Sandskeiði?” étur Ragnar upp eftir honum. „Við verðum stöðvaðir í Hafnarfirði.“

Allir voru þeir í Heklugosinu 1991 og náðu einstökum myndum.

„Framvegis verður Íslandssagan líklega bara Njála, 2. bindi,“ segir Ragnar. „Engar myndir.“

Nánar er rætt við fjórmenningana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert