„Þeim leist ekkert á þennan Kompás-mann“

Riddarar Stormsins, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson.
Riddarar Stormsins, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

„Heldur þú að þetta gæti verið þeirra síðasta samtal?“

„Það er svolítið erfitt að segja til um það, það hefur dregið heilmikið af henni. En það er alveg möguleiki að svo sé, já.“

Það er Kolbrún Sigurlásdóttir, hjúkrunarfræðingur í Bolungarvík, sem verður fyrir svörum. Hún er spurð, snemma í faraldri kórónuveiru á Íslandi, hvort Reynhildur Berta Friðbertsdóttir, vistmaður á hjúkrunarheimilinu Bergi þar í bænum, sé hugsanlega að fara að eiga sitt síðasta samtal við Árnýju dóttur sína. Samtalið fer fram gegnum spjaldtölvu svo langt sem það nær því Reynhildur er þrotin kröftum og illa áttuð.

Þannig hefst fyrsti þáttur af átta þátta heimildarþáttaröð Purks og Reykjavik Media sem hlotið hefur nafnið Stormur og er runnin undan rifjum þeirra Jóhannesar Kr. Kristjánssonar framleiðanda, Sævars Guðmundssonar leikstjóra og framleiðanda og Heimis Bjarnasonar klippimeistara. Þessir þremenningar eru hér til viðtals um verkefni sem náði yfir heilan heimsfaraldur, 400 tökudaga og 160 viðmælendur en auk þeirra eru Anna Karen Kristjánsdóttir og Brynja Gísladóttir framleiðendur.

Mars 2020

„Þetta byrjar í mars 2020 þegar Covid er virkilega að skella á,“ segir Jóhannes sem ríður á vaðið í sköpunarsögu Storms, „ég var nýbúinn að henda frá mér stóru alþjóðlegu fréttaverkefni sem ég var að þróa og fór að fylgjast með faraldrinum í fréttum, náttúrulega í Kína, á Ítalíu og svo hvernig þetta breiddist um Evrópu,“ rifjar Jóhannes upp af tímum sem ekki falla svo glatt í gleymskunnar dá, upphafsmánuðum óþekktrar pestar frá Kína.

Víðir Reynisson gerir Jóhannesi grein fyrir stöðu faraldursins þennan daginn. …
Víðir Reynisson gerir Jóhannesi grein fyrir stöðu faraldursins þennan daginn. Þrátt fyrir að þríeykinu hafi ekkert litist á þennan „Kompás-mann“ til að byrja með voru þau Alma, Víðir og Þórólfur hætt að taka eftir honum fyrr en varði. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist strax hafa hugsað með sér að þetta yrði að skrásetja, „dokúmentera“ eins og þessi gamalreyndi rannsóknarblaðamennsku- og fréttaskýringahaukur orðar það. Þar með hafi Sævar leikstjóri komið inn í myndina, þeir Jóhannes höfðu starfað saman áður og Jóhannes lagði spilin á borðið.

„Mér leist bara ekkert á þetta,“ segir téður Sævar, „Jóhannes kom þarna með þessa hugmynd þegar maður var að heyra fyrst af þessu Covid-dóti, að það væri nú gaman að gera heimildarmynd um þetta og það fyrsta sem ég hugsaði var að ég nennti ekki að koma nálægt þessu með töng einu sinni, heimildarmynd um einhverjar sýkingar,“ segir leikstjórinn sem í mars 2020 var fullur vantrúar.

Jóhannes myndar tugi lögreglumanna og hjúkrunarfræðinga við að rekja smit …
Jóhannes myndar tugi lögreglumanna og hjúkrunarfræðinga við að rekja smit eyþjóðarinnar í norðri. Ljósmynd/Aðsend

„En hann þráaðist auðvitað við og fór sjálfur með síma í einn dag að taka eitthvað upp og sýndi mér það og mér leist svona í meðallagi á. En svo fáum við aðgang að þríeykinu og við förum að heyra allar þessar sögur og þá kviknaði áhugi minn,“ segir Sævar en þeir aðstandendur Storms ræddu við fjölda fólks, sjúklinga, aðstandendur, heilbrigðisstarfsfólk og mun fleiri auk þess sem þeir fengu að fylgja þríeykinu annálaða, Ölmu Möller, Víði Reynissyni og Þórólfi Guðnasyni, hvert fótmál.

Öllum stundum á öllum fundum

„Við tveir höfum svo samband við þríeykið og óskum eftir þessu,“ segir Jóhannes, „vorum reyndar dálítið lengi að fá svar en fórum á fund til þeirra og þau samþykkja þetta,“ segir hann og rifjar upp sögu af því þegar Víðir kastaði því fram að Jóhannes og Sævar yrðu kannski með þeim í viku. Það hafi hins vegar orðið tvö ár þegar upp var staðið.

„Svo fylgjum við þeim bara eftir eins og fluga á vegg,“ heldur hann áfram. Sú sambúð hafi gengið treglega í byrjun, þrenningunni þjóðþekktu hafi augljóslega ekki þótt þægilegt að hafa Jóhannes yfir sér öllum stundum á öllum fundum. „Ekki leið hins vegar langur tími þar til þau hættu að taka eftir mér sem er raunverulega það besta sem maður fær. Þá ertu kominn á þann stað að ná samtölunum ómenguðum og enginn að passa sig neitt.“

Heimir og Sævar við myndatökur á Ísafirði.
Heimir og Sævar við myndatökur á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

Sævar leggur orð í belg um fyrstu skrefin með þeim Ölmu, Víði og Þórólfi. „Þeim leist ekkert á þetta til að byrja með en ég hafði reyndar unnið með Víði, ég gerði mynd um íslenska landsliðið í fótbolta sem heitir Jökullinn logar og þar var ég innanbúðar í tvö ár og Víðir var þá öryggisfulltrúi hjá KSÍ, Knattspyrnusambandinu, og við áttum í miklum samskiptum þá,“ segir Sævar. Jóhannes hafi hins vegar ekki notið slíks forskots, öðru nær.

„Þeim leist ekkert á þennan Kompás-mann sem var bara búinn að vera að afhjúpa hitt og þetta, nýkominn úr Panama-skjölunum og eitthvað svona,“ segir leikstjórinn og hlær við, „en aðgangurinn að þríeykinu var samt það sem kom öllu af stað og gerði þetta allt fyrir okkur. Að vera komnir með leyfi frá þeim hjálpaði okkur svo heilmikið að fá önnur leyfi og aðgang,“ segir hann enn fremur.

Helga sem smitaðist 102 ára

Í byrjun apríl hafi Jóhannes svo farið vestur til Bolungarvíkur þegar fyrstu smitin voru að koma þar upp á Bergi. Líklega hefði hann að eigin sögn aldrei komist yfir Steingrímsfjarðarheiði nema fyrir þá staðreynd að þar voru snjóruðningstæki að störfum svo koma mætti sýnum í greiningu í Reykjavík frá sjúkrahúsinu á Ísafirði.

Sævar mundar tökuvélina á lögreglustöðinni á Ísafirði.
Sævar mundar tökuvélina á lögreglustöðinni á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

„Ég keyrði bara á eftir þeim og ætlaði að vera í þrjá sólarhringa fyrir vestan en endaði á að vera þar í sex vikur,“ segir Jóhannes af dvölinni fyrir vestan en reyndar rekur hann sjálfur ættir þangað og kveður sér því enga vorkunn. „Ég þekki vel til þarna, á marga ættingja þarna og vini en maður gat ekki fengið gistingu neins staðar, það vildi enginn fá mann inn,“ segir Jóhannes af samfélagi sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann fékk þó að halla höfði sínu í læknaíbúð á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Vestfirsk gestrisni lætur ekki að sér hæða.

„Þarna náðum við pínkulitla samfélaginu fyrir vestan sem var að berjast við þessa veiru og við fengum svona míkrókosmíska mynd af litlu samfélagi sem veiran setti á hvolf og hvernig fólkið brást við. Þetta var bara smækkuð mynd af vandamálinu,“ útskýrir Jóhannes og bætir því við að Vestfirðingar hafi lagt mikið til þáttanna, svo sem söguna af Helgu sem smitaðist 102 ára gömul af veirunni, og margt fleira. Kveðst Jóhannes hafa upplifað „björgunarsveitarmannaeðli“ þjóðarinnar sterkt, allir hafi tekið höndum saman gegn aðsteðjandi ógn.

Sóttvarnalæknirinn stillir sér upp vígreifur með þáttagerðarmönnum.
Sóttvarnalæknirinn stillir sér upp vígreifur með þáttagerðarmönnum. Ljósmynd/Aðsend

„Jóhannes var svona mest út af örkinni til að byrja með,“ segir Sævar leikstjóri, „hann var þarna fyrir vestan og þá voru hlutir að gerast hér fyrir sunnan sem ég dekkaði á sama tíma. Þetta var bara eins og lest sem var ekki hægt að stoppa. Við ætluðum að byrja á einhverri 60 mínútna heimildarmynd sem átti að enda þarna sumarið 2020. Við vorum komnir með frábæran endi, Víðir Reynisson var að útskrifa lögregluskólanema á sama tíma og íslenska þjóðin var að útskrifast úr þessum faraldri. Meðan ég fylgdi Víði var Jóhannes með Þórólfi úti á flugvelli, þá voru landamærin að opna,“ segir leikstjórinn.

En sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Þvert á það sem heimsbyggðin taldi sumarið 2020, að heimsfaraldurinn væri í rénun og óhætt að snúa aftur til eðlilegs lífs, hrönnuðust dimm ský upp við sjóndeildarhringinn – og fóru mikinn.

Fengu ekki einu sinni inni í fangelsinu

„Svo byrjar síminn að hringja hjá Víði í útskriftinni. Þá er einhver þjófahópur frá Rúmeníu kominn til landsins með sýkingu og þá fer allt af stað aftur, kemur bara svona alda. Og við náum þessu í mynd hvor í sínum landshluta, ég með kameru á Víði fyrir norðan og Jói með Þórólfi í Keflavík að tala um hvað eigi að gera við þessa gaura, löggan vildi ekki einu sinni hafa þá í fangelsinu og enginn vissi neitt,“ segir Sævar af afdrifaríkum tímum sumarið 2020.

Sextíu mínútna myndin hafi því fljótt þróast upp í fjóra þætti. Ekki leið þó á löngu uns þættirnir voru orðnir sex og er upp var staðið þeir átta þættir sem nú eru um það bil að hefja göngu sína í íslensku sjónvarpi.

Stillt upp fyrir viðtal en viðmælendur í Stormi urðu alls …
Stillt upp fyrir viðtal en viðmælendur í Stormi urðu alls 160 þegar upp var staðið og tökudagarnir 400. Umfang Storms sem heimildarþáttar er, að því er aðstandendurnir telja, einsdæmi á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Við fengum aðgang að fólki og stofnunum úti um allt land,“ segir Jóhannes, „ég fór inn á gjörgæsludeildina í Reykjavík og fylgdi þar hjúkrunarfræðingi eftir. Við finnum fyrir álaginu á starfsfólkið, við kynnumst fólkinu á Covid-göngudeildinni, við fylgjumst með smitrakningunni, við kynnumst fólki, mannlegu hliðinni. Þetta er ekki bara einhver upptalning í krónólógískri röð faraldursins,“ heldur hann áfram.

Dyrnar stóðu ekki opnar alls staðar á fyrsta degi. Víða tók tíma að komast inn, til dæmis í stofnanir heilbrigðiskerfisins þar sem sóttvarnareglur ríktu ofar öllu. „En þegar fólkið á sjúkrahúsunum áttaði sig á því hvað við værum komnir með mikið efni og hvernig við ætluðum okkur að sinna þessu var liðleikinn mikill og það var líka leitað til okkar, fólki fannst mikilvægt að þessi saga yrði skráð. Ég hafði þá reglu að fengi ég ábendingu um sögu sem ég gæti sagt þá fylgdi ég því eftir, ég fór á staðinn, alltaf,“ segir Jóhannes.

Nei nei, ekki um jólin

Við vinnuna bak við Storm, 400 tökudaga, hafi þríeykið bak við þættina til dæmis kynnst hinu þríeykinu, því sem stóð í fremstu víglínu Covid, nánast eins og um ættingja væri að ræða. „Við kynnumst mökum þeirra og álaginu sem var á heimilum þeirra í öllu þessu ástandi. Ég upplifði mig oft óþolandi gagnvart þeim, ég var alltaf á eftir þeim. Þórólfur gerði stundum grín að því að það eina sem ég hefði ekki myndað væri svefnherbergi þeirra hjóna,“ rifjar Jóhannes upp.

„Það eru ekki til fordómar í þessu fólki. Þau tóku allar ákvarðanir út frá fyrirliggjandi gögnum, gerðust leiðtogar og leystu málin. Útkoman er mjög góð þegar þú þjappar þessum þremur karakterum saman og ég lærði gríðarlega mikið af þeim.“

Agnes Veronika leikur stórt hlutverk í Stormi en hún var …
Agnes Veronika leikur stórt hlutverk í Stormi en hún var ein þeirra sem fór vestur sem bakvörður í faraldrinum. Sævar og Heimir stilla ljósin fyrir eitt af nokkrum viðtölum við hana. Ljósmynd/Aðsend

Metnaður Jóhannesar var þó á köflum á mörkum þess að keyra úr hófi fram, svo sem þegar hann vildi miðla jólahaldi þríeykisins með tökum á heimilum landlæknis, sóttvarnalæknis og yfirlögregluþjóns almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra á aðfangadag. Þá sagði leikstjórinn hingað og ekki lengra.

„Jóhannes vildi alltaf meira og meira og sumt af því var eitthvað sem við höfðum ekkert að gera með,“ staðfestir Sævar. „Við vorum í grunninn komnir með sögu, við vorum komnir með upphaf, miðju og endi. Þá vildi hann fara heim til Þórólfs eða Ölmu að mynda þau við að útbúa jólamatinn og þá sagði ég hreinlega „Sko, Jói, ég sé hreinlega ekki hvar við erum að fara að nota þetta, viltu ekki gefa þeim smá „break“, þau eru með kameru í andlitinu alla hina dagana,““ heldur leikstjórinn áfram. Jóhannes hafi látið til leiðast. „En við fórum samt með „crew“ heim til Ölmu á annan í jólum,“ bætir Sævar glettnislega við.

Klipparinn kemur til sögunnar

Vinnan hafi verið ærin þótt aðfangadagsverkefninu hafi lokið með neitunarvaldi leikstjórans. „Svo var bara verið að klippa jafnóðum, við fengum Heimi þarna inn mjög snemma í að fara yfir efnið og klippa niður senur og sjá útkomuna. Hann klippir langmest þótt við höfum klippt eitthvað báðir, hann tekur alveg fyrstu umferðina á þetta,“ segir Sævar.

Þórólfur kíkir í kaffi til framleiðslufyrirtækisins.
Þórólfur kíkir í kaffi til framleiðslufyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend


Undir lokin hafi fínpússningarvinnan numið tólf til fjórtán tímum á dag, svo sem við að færa senur milli þátta í umhverfi sem þeim þremenningum hafi þótt henta betur með hliðsjón af framvindu sögunnar. Allir þættirnir hafi þurft að ganga upp sögulega, hvort tveggja innan hvers þáttar og í heildarsögunni sem er sjö klukkustunda tímalína átta þátta.

En hver er þessi Heimir sem Sævar nefnir þarna sem innsta kopp í búri klippivinnu? Heimir Bjarnason er, sem fyrr segir, klippari en hefur reyndar einnig fengist við leikstjórn. Hann fékk kvaðningu frá þeim Jóhannesi og Sævari á haustdögum 2020.

„Ég þekkti Sævar og Jóhannes ekki persónulega en fæ allt í einu skilaboð þarna í lok sumars 2020 frá Sævari um að hann sé með efni sem hann langi að biðja mig að koma og kíkja á,“ segir Heimir frá. „Ég var nýbúinn að klára að klippa þrjár þáttaraðir og ætlaði að fara að taka mér pásu frá klippinu en fór og kíkti á þetta hjá Sævari og leist bara rosalega vel á,“ heldur klippimeistarinn áfram.

Upptökur fyrir lokaþátt Storms, sóttvarnalæknir hagræðir grímunni.
Upptökur fyrir lokaþátt Storms, sóttvarnalæknir hagræðir grímunni. Ljósmynd/Aðsend

Heimir sló því til og má segja að örlög hans hafi verið ráðin næstu tvö árin og vel rúmlega það.

„Hann minntist ekkert á Covid í fyrstu skilaboðunum sem ég held að hafi verið mjög sniðugt hjá honum. Þarna var ég bara eins og allir aðrir Íslendingar orðinn hundleiður á Covid og búinn að vera í sóttkví og einangrun og allt þetta. En svo þegar ég sá efnið og Jóhannes sagði mér frá fólkinu sem hann hafði verið að tala við ákvað ég að gefa þessu séns og sagði já.“

Tekist á um efniviðinn

Hann segir verkefnið hafa verið mjög krefjandi, bakgrunnur hans á þessum tíma hafi einkum verið í gamanþáttum og verkefnum þar sem fast handrit lá fyrir. Heimis beið það hlutskipti að horfa á allt efnið sem Jóhannes og Sævar báru í hann. Aðeins brot af því endaði að lokum í þáttunum sjö, heildarumfang hráefnisins var hins vegar gríðarlegt.

„Ég vissi ekkert hvað var upp eða niður í byrjun og hvernig best væri að vinna úr þessu. Það tók tíma að komast inn í þetta, komast yfir efnið og átta sig á því með Sævari og Jóhannesi hver sagan væri,“ segir Heimir.

Eitt fjölmargra viðtala við Víði að baki.
Eitt fjölmargra viðtala við Víði að baki. Ljósmynd/Aðsend

Eðlilega hafi þeir ekki alltaf verið sammála um efnistök eða hvað ætti að nota og hverju ætti að fórna. „Allir voru með sína skoðun á því. Þú getur farið í mjög margar áttir með þetta efni en þættirnir virka að mínu mati mjög vel vegna þess að allir þurftu að berjast fyrir sínu. Þú þurftir alltaf að vera með bestu rökin. Og það er auðvitað mjög góð aðferð til að það besta skili sér að lokum í gegn,“ rifjar hann upp af því er þeir þremenningarnir settust á rökstóla og kusu efni sínu örlög.

Sævar leikstjóri kannast vel við þetta.

„Þetta var mikill barningur, Jóhannes kannski búinn að komast þarna inn og fá að tala við þennan mann, svo erum við kannski að klippa þetta og þetta passar ekki inn í flæðið í þættinum eða tempóið. Þá kemur upp rifrildi, hann vill halda þessu inni og maður þurfti stundum að drepa börnin sín og börnin hans Jóhannesar. Þetta var alveg barningur sko,“ viðurkennir Sævar.

Tvöfaldur veruleiki klipparans

Heimir klippari sat fastur fyrir framan tölvuskjá fyrsta árið og var lítið úti á vettvangi með lagsmönnum sínum. „Svo hægt og rólega datt maður aðeins inn í tökur sem aðstoðarmaður í viðtölunum. Ég tók ekki viðtöl sjálfur en við sömdum spurningarnar fyrir lokaviðtölin saman,“ segir hann.

Frá áhorfstímabilinu þar sem horft var á hvern þátt mörgum …
Frá áhorfstímabilinu þar sem horft var á hvern þátt mörgum sinnum til að ákveða hvað mætti klippa út til að bæta flæðið. Þreytan aðeins farin að segja til sín. Ljósmynd/Aðsend

Á fimmtudaginn forsýndu þeir þremenningarnir fyrstu tvo þætti Storms í Laugarásbíói fyrir valda gesti, svo sem viðmælendur, heilbrigðisstarfsfólk og fleiri. Heimi leist vel á viðtökurnar.

„Þetta voru frábærar viðtökur, það var alveg komið smá stress um hvernig fólk tæki þessu, átta þættir af Covid hljómar dálítið þurrt en eins og einn sagði við mig á sýningunni þá er þetta ekki það sem fólk bjóst við. Þetta eru sögurnar og mannlega hliðin. Þannig að manni var mjög létt eftir sýninguna í gær,“ segir hann af forsýningunni og lumar á sögu af vinnsluferlinu.

„Maður var orðinn svo kexruglaður, búinn að vera í marga mánuði að klippa efni. Vorið 2021 var ég að klippa efni frá sumrinu 2020. Þá var ekki komin grímuskylda á Íslandi og maður var farinn að lifa í efninu. Ég fór út í búð í hádeginu og sá fullt af fólki með grímur og skildi ekkert í þessu. Ég hugsaði með mér „hvað er að ykkur, það er ekki komið að grímunum, hvað eruð þið að gera?“ Maður bjó bara í öðrum tímaramma, ég var í raun að upplifa tvöfalt Covid, það sem var í gangi í þáttunum og úti í þjóðfélaginu,“ segir Heimir.

Alma Möller vildi fá Jóhannes með sér í bólusetningu. Hann …
Alma Möller vildi fá Jóhannes með sér í bólusetningu. Hann nýtti auðvitað tækifærið og myndaði aðsókn fjölmiðla á meðan nálin var rekin í landlækni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er þá tilfinningin þegar komið er nánast að leiðarlokum, aðeins fínpússning síðustu þáttanna eftir?

„Þetta er hálfsúrrealískt, ég man að ég hugsaði í byrjun að maður gat engan veginn ímyndað sér hvernig þetta kæmi til með að líta út þegar þetta yrði tilbúið en nú er komið að því og allir eru að fara að horfa á þetta,“ segir Heimir en Ríkisútvarpið tekur þættina til sýningar á sunnudagskvöldum frá og með morgundeginum, 29. janúar.

„Þetta er bara búið að vera mjög lærdómsríkt ferli, bæði að vinna með Jóhannesi og sjá hvernig hann nær öllu þessu efni og öllum þessum aðgangi og um leið frábært að vinna með Sævari sem er leikstjóri og klippari svo maður hefur auðvitað lært fullt af honum, hann er með rosalega reynslu í bransanum,“ segir Heimir Bjarnason klippari.

Sorgir og sigrar

Vitanlega hefði vinnsla Storms aldrei orðið að veruleika án styrkja. Jóhannes, Sævar og Heimir lifðu og hrærðust í þáttagerðinni allan faraldurinn. Kvikmyndasjóður Íslands og Ríkisútvarpið hlupu þar undir bagga.

Algeng staða, Jóhannes við tökur einn hinna 400 daga sem …
Algeng staða, Jóhannes við tökur einn hinna 400 daga sem þær stóðu yfir. Ljósmynd/Aðsend

„Við fengum styrk úr sjóðnum fljótlega eftir að við fórum af stað, hann var reyndar bara kallaður „Covid-styrkur“ sem fleytti okkur eitthvað áfram,“ segir Sævar. „Síðar fengum við svo 20 milljónir, fullan styrk, þeir setja ekki meira í styrk fyrir heimildarmynd, þótt við hefðum reyndar verið að gera heimildarmyndaseríu. Þegar RÚV frétti að við værum komnir af stað með þetta verkefni sýndu þeir því mikinn áhuga nánast frá byrjun og spurðu svo hvort þeir mættu ekki koma inn í þetta og þá fengum við fjármagn þaðan.“

Hann segir eftirvinnsluna á lokametrunum kosta sitt og nefnir hljóðsetningu, tónlist, grafík, samsetningu og fleiri kostnaðarliði. „Við ríðum ekki feitum hesti frá þessu ferðalagi,“ segir Sævar enda sé það ekki raunveruleiki íslenskra kvikmyndagerðarmanna. „Þú þarft bara að ganga á milli staða.“

Jóhannes og Sævar við Galtarvita sem, ótrúlegt en satt, kemur …
Jóhannes og Sævar við Galtarvita sem, ótrúlegt en satt, kemur við sögu í þriðja þætti. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Jóhannes tekur undir þau orð Heimis að þættirnir sýni ekki það sem fólk flest búist við. „Ég hef grun um að fólk haldi að þetta sé bara upptalning á atburðarásinni eins og hún var. En þetta er ekki ritgerð. Þetta eru sögurnar af þessu fólki, þessari mannlegu hlið faraldursins og það er það sem límir þetta saman, þetta venjulega fólk sem varð fyrir barðinu á þessu, vann við þetta, sumir dóu og sumir lifðu. Þetta eru sorgir og sigrar og við fundum það mjög vel á forsýningunni hvernig fólk tók þessu, þar var grátið og hlegið,“ segir Jóhannes og játar að líklega sé það viss galli, en þó stundum kostur, hvað hann fari „all in“, eins og sagt er, í verkefni sín.

„Þegar ég var fyrir vestan að ná í efni í apríl 2020 og gjörgæslan fylltist af Covid-sjúklingum þá sendi ég Sævari vídeó þar sem ég segi honum að ef ég veikist af Covid og verði lagður inn á gjörgæsludeild þá gefi ég honum leyfi til að mynda mig á gjörgæslunni. En sem betur fer smitaðist ég ekki á þessum tíma áður en bóluefnin komu – það var miklu síðar,“ rifjar Jóhannes upp.

Þakklæti efst í huga

Sævar segir framleiðslu þáttanna hafa falið í sér það sem hann líkir við risastórt púsluspil. „Það sem stendur upp úr þessu eru sögurnar. Þegar sögurnar fara að „meika sens“ innan þáttanna þá er það svolítið stóra stundin og auðvitað var forsýningin það líka, hún var framar öllum vonum þótt kannski megi segi að maður hafi haft mjög hliðhollan sal. Ég vona að minnsta kosti að efnistökin komi á óvart og þetta sé allt öðruvísi en fólk kannski hélt að þetta yrði,“ eru lokaorð Sævars Guðmundssonar leikstjóra og fyrst þeir Heimir klippari hafa báðir fengið að deila tilfinningum sínum á efsta degi með lesendum er rétt að Jóhannes Kr. Kristjánsson fái að gera það líka.

Álagið á gjörgæslunni var oft mjög mikið í faraldrinum. Hér …
Álagið á gjörgæslunni var oft mjög mikið í faraldrinum. Hér er Jóhannes við tökur á gjörgæslunni með Sóleyju Halldórsdóttur hjúkrunarfræðingi sem fylgt er eftir í gegnum þættina. Við hlið hennar stendur Dill Viejo hjúkrunarfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mjög stoltur af þessu verkefni og þrátt fyrir að minn ferill í sjónvarpsþáttagerð spanni nærri 20 ár þá er þetta stærsta verkefni sem ég hef unnið að,“ segir Jóhannes. „Ég er samt enn þá í búbblunni því það er svo mikið að gera hjá okkur strákunum að klára alla þætti og gera allt sem gera þarf.

Það sem er mér hins vegar efst í huga núna – svona rétt áður en þessi átta þátta sería fer í loftið –  er þakklæti til allra þeirra sem koma að gerð þáttanna. Og ekki síst þeirra sem fram koma í þáttunum því margir sýna mikinn kjark með því að segja sögu sína. Ég leyni því ekki að ég er svo farinn að huga að næstu verkefnum með Sævari og Heimi og það er margt á hugmyndaborðinu,“ lýkur Jóhannes frásögn sinni af gerð Storms þar sem gerð er tilraun til að varpa hinni hlið heimsfaraldursins upp á skjáinn.

Auglýsingaveggspjald Storms sem hefur göngu sína í Ríkisútvarpinu á morgun, …
Auglýsingaveggspjald Storms sem hefur göngu sína í Ríkisútvarpinu á morgun, sunnudag. Veggspjald/Aðsent
mbl.is