Viðgerð upp á 350 milljónir

Vatn flæddi í stríðum straumum um Hvassaleitið og fór það …
Vatn flæddi í stríðum straumum um Hvassaleitið og fór það meðal annars inn í kjallara, bílskúra og bíla mbl.is/Árni Sæberg

Veitur áætla að endurnýjun á stórri kaldavatnslögn sem fór í sundur í Hvassaleiti í september í fyrra muni kosta um 350 milljónir. Þetta kemur fram í fjárfestingaáætlun félagsins, en farið var yfir nokkur stærri verkefni ársins á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í vikunni.

Lagnabilið sem verður endurnýjað á árinu er um 700 metra langt og nær frá Háaleitisbraut að Kringlumýrarbraut. Jafnframt verður framkvæmdin nýtt til þess að fóðra fráveitulögn á sama kafla. Áætla Veitur að framkvæmdin muni taka lungann úr árinu þar sem um mjög umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Unnið verði að því hörðum höndum að koma lögninni aftur í rekstur fyrir næsta vetur.

Lögnin er 80 cm kaldavatnslögn og þegar hún fór í sundur flæddi vatn um nærliggjandi svæði og meðal annars inn í nærliggjandi bílskúra. Þurfti tryggingafélag Veitna meðal annars að greiða tugi milljóna í bætur vegna tjóns á bifreiðum og innanstokksmunum.

Í ársfjórðungsuppgjöri Orkuveitunnar í fyrra kom fram að líklegt væri að nokkrar samverkandi ástæður væru fyrir því að lögnin gaf sig. Seg­ir þar að lík­leg­ast sé að or­sak­ir fyr­ir rof­inu séu ófull­nægj­andi efn­is­gæði í röri eða galli sem hafi komið fram í því. Einnig sé mögu­legt að breyt­ing­ar í um­hverfi hafi leitt til þess að lögn­in rofnaði og er til­tekið að jarðhrær­ing­ar sem hafa átt sér stað á Reykja­nesi und­an­farið gætu hafa átt þátt í að lögn­in fór í sund­ur. Hafnaði fyrirtækið hins vegar alveg að um mistök eða vanrækslu væri að ræða.

Talsvert tjón varð eftir að vatnslögn gaf sig við Hvassaleiti.
Talsvert tjón varð eftir að vatnslögn gaf sig við Hvassaleiti. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert