Bráðum „of gamall“ fyrir starfið

Kári vinnur jöfnum höndum sem jöklaleiðsögumaður og tískumódel úti í …
Kári vinnur jöfnum höndum sem jöklaleiðsögumaður og tískumódel úti í hinum stóra heimi. mbl.is/Ásdís

Kári Timsson heitir ungur maður sem starfar víða um heim sem tískumódel en þess á milli fer hann með ferðamenn upp á jökla. Kári segir þetta tvennt fara afar vel saman, en oftast vinnur hann eina viku við leiðsögnina og hina er hann á fleygiferð á tískusýningum í París eða Mílanó. 

Kári þarf stundum að sitja fyrir nakinn og finnst það …
Kári þarf stundum að sitja fyrir nakinn og finnst það yfirleitt lítið mál. Ljósmynd/Hadar Pitchon

Aldrei órað fyrir að verða módel

„Ég elska þetta starf. Maður hittir svo margt áhugavert fólk. Ég var fljótlega ráðinn af fimm merkjum,“ segir hann og segist í dag mest vinna fyrir merkið Thom Brown.

„Mig hefði aldrei órað fyrir að ég yrði módel. Mig dreymdi um að verða atvinnumaður í fótbolta þegar ég var drengur, en það varð ekki,“ segir hann og brosir.

Hér sýnir Kári á tískuviku í London.
Hér sýnir Kári á tískuviku í London.

„Rauða hárið og bláu augun eru eftirsóknarverð. Það er ótrúlegt að vera hluti af þessum hópi karlmódela. Það eru bara til fimm hundruð í heiminum og ég er einn þeirra. Ég hef farið á tískuvikur karlmanna tvisvar á ári nú í sjö, átta ár,“ segir hann og segist líka fara á tískuvikur kvenna, sem áhorfandi.

„Ég elska tísku, en hafði engan áhuga áður en ég lenti í þessum bransa. Í dag er þetta frekar list en tíska. Hönnuðurinn er að tjá sig í gegnum föt og vill sýna hvað sé mögulegt. En auðvitað eru föt eins og þau sem sjást á tískupöllunum ekki seld í búðum. Mér finnst svo gaman að fá að taka þátt í þessu. Því skrítnara og furðulegra, því betra.“

Mynd á Times Square

Nóg hefur verið að gera hjá Kára í módelstörfum, en þó segist hann nú bráðum „of gamall“ fyrir starfið.

Uppáhaldstískumerkið hans Kára er Thom Brown, en hann er einmitt …
Uppáhaldstískumerkið hans Kára er Thom Brown, en hann er einmitt í fötum frá þeim á þessari mynd.

„Módelstörfunum fer fækkandi en þegar maður er eins og ég, að nálgast 27 ára, er það í þessum bransa eins og að vera áttræður. Ég er með „gamalt“ andlit. Þessi ferill er mjög stuttur en mögulega kemst maður aftur inn í bransann þegar maður verður kominn yfir miðjan aldur, en það er algengt til dæmis að eldri menn auglýsi úr. En ég er klárlega á endasprettinum núna,“ segir hann, en Kári hefur búið í Mílanó, London, París og Kaupmannahöfn og í Hollandi á síðustu árum.

„Þegar ég byrjaði fór ég út um allan heim, aðra hverja viku, til Evrópu eða Asíu, í alls konar verkefni. Ég hef auglýst mikið af húðvörum. Rauða hárið og föla húðin sló í gegn í Asíu,“ segir hann og segist oft hafa séð myndir af sér á stórum auglýsingaskiltum.

Hér má sjá ansi sérstök föt frá Thom Brown, en …
Hér má sjá ansi sérstök föt frá Thom Brown, en Kári elskar að klæðast listrænum fötum.

„Það er ofsalega skrítið! Ég hef séð myndir á veggjum í París og á strætisvögnum, aðallega auglýsingar frá Thom Brown. Ég hef líka séð mynd af mér á Times Square, sem var mjög töff, en það er samt alltaf svo skrítið. Hvernig get ég verið þarna?“ segir Kári og nefnir að myndir af honum hafi margoft birst í Vogue og í 10 Men.

Ítarlegt viðtal er við Kára í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »