Ekkert verður af fundi Eflingar og Guðmundar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verður af fundi forystu Eflingar og Guðmundar Inga Guðbrandssyni félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra sem átti að fara fram klukkan 8:30 í fyrramálið. Þetta staðfestir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Guðmundur segir ástæðu þess að fundinum sé aflýst vera að hann hafi óvænt þurft að flýta ferð sinni til Kaupmannahafnar vegna veðurs en þar mun hann stýra fundi norrænu ráðherranefndarinnar á þriðjudagsmorgun. Eins og greint hefur verið frá mun stormur ganga yfir landið á morgun og hafa ýmsar viðvaranir verið gefnar út vegna þessa. 

Vissi ekki að búið væri að aflýsa

Fyrr í dag höfðu Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Guðmundur komist að niðurstöðu um að funda klukkan 8:30 í fyrramálið en þegar að mbl.is setti sig í samband við Sólveigu á fimmta tímanum í dag hafði henni ekki borist veður af því að fundinum væri aflýst. Þá sagðist hún vongóð fyrir fundinum og sagði hann mikilvægan til að mótmæla framferði ríkissáttasemjara.

Eins og áður hefur verið greint frá óskaði Sólveig í gær eftir áheyrn Guðmundar og krafðist fundar með honum ekki seinna en á mánudagsmorgun vegna framgöngu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara í samningaviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. 

Sólveig vildi fá fund með Guðmundi áður en að mál Eflingar og Ríkissáttasemjara vegna kjörskrá Eflingar færi fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Nú er ljóst að ekki verður af fundi Eflingar og Guðmundar fyrir fyrirtöku málsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina