Fauk á öfugan vegarhelming í hálku

Þrjár klukkustundir tók að ná stjórn á aðstæðum.
Þrjár klukkustundir tók að ná stjórn á aðstæðum. Ljósmynd/Aðsend

Betur fór en á horfðist þegar tengivagn flutningabíls fauk á öfugan vegarhelming og í veg fyrir fólksbíl í Langadal, á þjóðvegi 1, skammt frá Blönduósi um fimmleytið í dag. Vegurinn var flugháll, veðrið hvasst og myndaðist skafrenningur við aðstæður á vettvangi, að sögn Höskuldar Birkis Erlingssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

„Vegriðið bjargaði miklu þarna“

Þegar bílarnir voru í þann mund að mætast fauk vagn, sem festur var við flutningabílinn, á öfugan vegarhelming. Fór hann í veg fyrir fólksbílinn sem lenti á vagninum. Loka þurfti þjóðveginum eftir slysið og tóku aðgerðir viðbragðsaðila um þrjár klukkustundir.

Í fólksbílnum var ungt par með barn. Betur fór en á horfðist að sögn Höskuldar. Farþegar sluppu við meiðsl en voru skelkaðir eftir óhappið.

„Það má þakka því að fólksbíllinn lenti á vegriði. Ef ekki hefði verið fyrir það, hefði hann farið fram af mjög brattri brekku og endað einhvers staðar langleiðina niður undir Blöndu. Vegriðið bjargaði miklu þarna.“   

Fleiri flutningabílar fuku

Vagnar tveggja flutningabíla, sem komu á svæðið eftir slysið, fuku einnig að sögn Höskuldar.

„Það voru miklar aðgerðir á vettvangi vegna aðstæðna. Það var mikil umferð og við lentum í vandræðum með vegfarendur. Tveir flutningabílar komu eftir að við höfðum lokað og vagnar þeirra fuku líka. Síðan komu aðrir vegfarendur með minni kerrur og þeir voru að lenda í vandræðum líka,“ segir Höskuldur. Langan tíma hafi tekið að ná stjórn á aðstæðum og beina bílum í annan farveg.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert