Kafa í losun á ræktarlandi

Landgræðslan mun afla nýrra gagna.
Landgræðslan mun afla nýrra gagna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Landgræðslan mun endurmeta losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi í losunarbókhaldi Íslands og verður með því aflað nýrra gagna um losun og bindingu frá ólíkum svæðum. Í dag er stuðst við rannsókn á málaflokknum frá árinu 1975.

Ræktarlandið sem um ræðir eru tún og akrar en þar af er 45% framræst land, að sögn Jóhanns Þórssonar, vistfræðings Landgræðslunnar.

Byggir á gömlum rannsóknum

„Losunartölur fyrir þetta land byggja á gömlum rannsóknum því lítil áhersla hefur verið lögð á að meta kolefnisbúskap lands almennt hingað til. Það er ekki fyrr en með Parísarsamningnum sem þessir þættir fara að skipta verulegu máli, og þar sem ræktarland er einungis um 1% af heildarflatarmáli lands, þá hefur það mátt bíða meðan lögð hefur verið áhersla á votlendi annars vegar og mólendi hins vegar,“ segir í skriflegu svari frá Jóhanni.

Í loftlagsbókhaldinu er ræktarlandi skipt í tvennt, í land sem er í ræktun eða notkun og land sem er ekki nýtt. Svæði geta flust þar á milli, reglulega eftir nýtingu. 

Lokaniðurstöður liggi fyrir í árslok 2026

Farið verður í mælingar á kolefnisbúskap ræktarlands og hefur matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið hafa falið Landgræðslunni að annast verkefnið, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Mun hún afla nýrra gagna meðal annars með sýnatökum og mælingum á fjölda svæða víðs vegar um landið í því skyni að bæta losunarbókhald Íslands og stuðla sem það byggir á.

Ráðuneytin hafa unnið í sameiningu að undirbúningi verkefnisins og gert er ráð fyrir að Landgræðslan leiti samstarfs við háskólastofnanir eða aðra hæfa aðila í verkefninu. Reikna má með að fyrstu niðurstöður liggi fyrir árið 2024, en lokaniðurstöður í árslok 2026.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert