Segir fórnarlömb geta sótt bætur til bankanna

Breki telur varnir bankanna ekki standast lög og að það …
Breki telur varnir bankanna ekki standast lög og að það hafi kostað viðskiptavini þeirra hundruð milljóna króna. Samsett mynd

Íslenskir viðskiptabankar ganga skemur en lög kveða á um þegar það kemur að því að vernda viðskiptavini sína gegn fjársvikum. Til eru fordæmi fyrir því að bankar hafi endurgreitt fórnarlömbum slíkra pretta.

Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna í samtali við mbl.is.

3D Secure standist ekki nútímakröfur

Hann segir helsta gallann vera 3D Secure-auðkenninguna sem sumir bankar noti til að ganga úr skugga um hvort eigandi kortsins sé að nota það sjálfur með því að senda SMS-skilaboð á símanúmer notandans.

Breki segir auðkenninguna ekki standast kröfur um öryggi og að það sé samróma álit bæði evrópska bankaeftirlitsins og kortafyrirtækjanna sjálfra.

Margir hafi tapað háaum fjárhæðum sem nýta sér vankanta þessa kerfis og Breki nefnir fjárhæðir sem hlaupa á tugum milljóna króna sem dæmi.

Að sögn Breka lögðu lög um greiðslumiðlun, sem tóku gildi 1. nóvember 2021, skyldu á bankana um ítarlegri auðkenningu en þá sem er beitt í 3D Secure-kerfinu og því eigi þeir sem hafi orðið fyrir fjársvikum eftir þann tímapunkt mögulega rétt á bótum frá bankanum.

Bankarnir þöglir

Segist Breki sjálfur vita um fordæmi fyrir því að bankarnir hafi greitt fórnarlömbum svika fébætur þó svo að bankarnir sjálfir þegi um það.

Lausnina við þeim auðkenningarvanda sem 3D Secure-lausnin valdi væri sú að láta notendur skrá sig inn í heimabankann sinn til að samþykkja færslur. Breki segir einhverja banka nú þegar hafa hætt að nota 3D Secure-lausnina og beitt síðarnefndri aðferð í staðinn.

“Bankar eiga að gæta fjármuna okkar og vera öruggir, þó bankar geri margt til þess að gæta þeirra þá höfum við séð dæmi um að bankareikningar hafi verið tæmdir þrátt fyrir allar varnir bankanna. Jafnvel með millifærslur um miðjar nætur til landa sem eru langt í burtu og ættu að kveikja öll viðvörunarljós en hafa sloppið í gegn.“

Breki hvetur alla þá sem hafi lent í þessu til að setja sig í samband við Neytendasamtökin og freista þess að sækja bætur beint til bankanna.

mbl.is