Ber fullt traust til ríkissáttasemjara

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra kveðst ekki ætla að beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari dragi miðlunartillögu sína til baka. Hann segir embættið sjálfstætt í sínum störfum og að hann beri fullt traust til ríkissáttasemjara. Rúv greinir frá.

Efling hefur krafist þess að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari komi ekki meira að kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eftir að hann lagði fram miðlunartillögu á fimmtudaginn í síðustu viku.

Frestaði fundinum

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna mun ekki hefjast á þeim tíma sem áformað var þar sem Efling hefur neitað að afhenda kjörskrá sína. Ríkissáttasemjari mun leita til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna málsins.

Guðmundur Ingi og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ætluðu að funda í dag en ráðherrann frestaði fundinum þar sem fluginu hans var flýtt vegna veðurs í dag. Hann kveðst ætla að funda með Sólveigu Önnu þegar hann kemur aftur til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert