Björgunarsveitir kallaðar út um allt land

Landsbjörg að störfum.
Landsbjörg að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út víðs vegar um landið vegna óveðursins að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

„Í Snæfellsbæ í augnablikinu er verið að fara í fastan bíl á Arnarstapavegi. Þar eru ferðamenn. Þá er búið að tilkynna um fastan bíl á Fróðárheiði. Björgunarsveitin Lífsbjörg á Snæfellsnesi er að fara í þessi verkefni,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Á Mosfellsheiði eru nokkrir fastir bílar, sennilega um fjórir, sem eru við afleggjarann að Skeggjastöðum sem er rétt eftir að komið er niður af heiðinni í áttina að vatninu. Björgunarsveitin Kyndill er lögð af stað í það verkefni.“

Þá er björgunarsveitin Þorbjörn að fara að aðstoða fastan bíl við Kleifarvatn.

mbl.is