Málinu frestað til föstudags

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætti í dómsal í dag …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætti í dómsal í dag ásamt lögmanni félagsins, Daníel Ágústssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að máli ríkissáttasemjara gegn Eflingu verði frestað til næstkomandi föstudags í því skyni að gefa Eflingu ráðrúm til að leggja fram  greinargerð í málinu.  

Greinargerðinni verður skilað klukkan 9.15 um morguninn og málflutningur verður haldinn síðar um daginn, eða klukkan 13.15 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Daníel Ágústsson, lögmaður Eflingar, óskaði í héraðsdómi eftir tveggja til þriggja vikna fresti til að skila greinargerð og gögnum. Bergþóra Ingólfsdóttir dómari var því mótfallin. Andri Árnason, lögmaður ríkissáttasemjara, óskaði eftir því að málið yrði flutt í lok þessarar viku. 

Lögðu fram stjórnsýslukæru

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, greindi frá því að lokinni fyrirtökunni í héraðsdómi að Efling hafi lagt fram stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar ríkissáttasemjara um miðlunartillöguna og var henni skilað í morgun til ráðuneytis vinnumarkaðsmála.  

Efling telur miðlunartillögu ríkissáttsemjara ólögmæta og segir hann ekki hafa full­nægt skil­yrðum laga um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur.

Fjölmörg álitaefni 

Daníel sagði fjölmörg álitaefni í málinu og sagði eðilegt að tvær til þrjár vikur þyrfti til að skila greinargerð og gögnum í málum sem þessum. Hannn sagði um vera að ræða inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi, brotið hafi verið gegn réttarfarsreglum, stjórnsýslulögum og gegn stéttarfélags- og vinnureglum.

Hann sagði að búið væri að „koma þeirri stemningu á fót í fjölmiðlum“ að málinu ætti að ljúka í dag eða um miðja vikuna. „Að sjálfsögðu klárast svona mál ekki á tveimur dögum,“ sagði hann og kvaðst ekki átta sig á „þessum asa“. Daníel spurði jafnframt hvort málið í héraðsdómi væri rekið til að koma í veg fyrir verkfall og sagðist vilja vita það hreint og skýrt. Ekki eigi að reka málið eins og gert er fyrir félagsdómi. 

Bergþóra dómari sagði óþarfi að hafa frestinn svona langan og sagði það ekki tíðkast að veita svo langan frest í innsetningarmálum af þessum toga. Hún sagði það mat dómsins að rétt væri að halda málinu áfram. Hún sagði það óvenjulegt og vissi ekki til þess að fordæmi væru fyrir því.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert