„Algjörlega fráleit túlkun“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, voru …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, voru ekki sammála í þingsal í dag. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

„Augljóslega er ég ekki að taka afstöðu til efnis miðlunartillögunnar. Það er algjörlega fráleit túlkun hjá háttvirtum þingmanni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Þar gerði Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, tillögu sáttasemjara í kjaradeildu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar að umtalsefni. Hann sagði að tillagan stæðist ekki skoðun.

„Hæstvirtur forsætisráðherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að miðlunartillaga ríkissáttasemjara standist skoðun. Með því er hæstvirtur forsætisráðherra að taka afstöðu til deilunnar. Svo einfalt er það,“ sagði hann. 

Stjórnvöld eigi ekki að beita sér í kjaradeilum

Katrín sagði að það væri ávallt best ef aðilar gætu leyst málin sín á milli við samningaborðið. Það væri hin eðlilega leið. Katrín er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi helst ekki að beita sér í slíkum málum. 

Hún benti enn fremur á, að þegar málum væri vísað til ríkissáttasemjara þá væru þau þegar komin á erfiðan stað. Það væri ekki sjálfgefið að málum væri vísað til sáttasemjara. Katrín tók fram að ríkissáttasemjari hefði tekið sjálfstæða ákvörðun í kjaradeilu Eflingar og SA um að nýta heimild sína til að leggja fram miðlunartillögu. 

„Og eftir að hafa skoðað þetta mál út frá minni bestu getu, sé ég ekki betur en að sáttasemjari sé innan þeirra heimilda sem er að finna í lögum. Það sem ég hef líka sagt mjög skýrt í fjölmiðlum, ef háttvirtur þingmaður hefur hlustað eftir því, að ef aðilar eru ósammála því mati þá geta þeir leitað til dómstóla,“ sagði Katrín og benti að að sú væri nú raunin í deilunni. 

Sáttasemjari eigi að vera sjálfstæður í sínum störfum

„Augljóslega er ég ekki að taka afstöðu til efnis miðlunartillögunar. Það er algjörlega fráleit túlkun hjá háttvirtum þingmanni. Það sem ég er að taka afstöðu til er að sáttasemjari hafi þessa heimild og hann eigi að vera sjálfstæður í sínum störfum. Hann eigi ekki að vera háður afskiptum stjórnmálamanna um það hvernig hann metur stöðuna,“ sagði Katrín. 

Eyjólfur hélt fast við sinn keip er hann steig aftur í pontu, og fullyrti aftur að Katrín hefði tekið afstöðu með tillögu sáttasemjara og að nú ætti félags- og vinnumarkaðsráðherra erfitt með að halda öðru fram í deilunni. „Það er klárt mál að forsætisráðherra er búinn að segja skoðun og styður þessa tillögu ríkissáttasemjara, bæði að efni og formi.“

„Ef háttvirtur þingmaður skilur mælt mál“ 

Katrín sagði ljóst að þau skildu stjórnskipan landsins með gerólíkum hætti. Hún ítrekaði þá skoðun sína, að svo virðist sem að miðlunartillaga ríkissáttasemjara í deilunni sé innan þeirra heimilda sem séu afmarkaðar séu í lögum.

„Þar með tek ég enga efnislega afstöðu til tillögunnar, augljóslega ef háttvirtur þingmaður skilur mælt mál. Í öðru lagi kom þar skýrt fram að aðilar eiga að leita til dómstóla. Það er ekki þannig stjórnskipan hér að ráðherra, forsætisráðherra, taki afstöðu til þess hvort að þetta standist lög. Augljóslega eru það dómstólar sem eiga þá síðasta orðið. Það á háttvirtur þingmaður að vita, löglærður sem hann er, og þar liggur málið núna,“ sagði forsætisráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina