Börn og fatlaðir sæta einangrun hér á landi

Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi.
Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi. Ljósmynd/Íslandsdeild Amnesty International

Á Íslandi er einangrunarvist í gæsluvarðhaldi beitt óhóflega og ítrekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyntingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er til mynda beitt gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir hér á landi, en það ætti ekki að líðast.

Með óhóflegri beitingu einangrunarvistar brjóta Íslendingar meðal annars gegn samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu með alvarlegum afleiðingum fyrir sakborninga og rétti þeirra til sanngjarnra réttarhalda.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu Amnesty International: „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“. Í henni er skorað á íslensk stjórnvöld, sem nú gegna formennsku í Evrópuráðinu, að skuldbinda sig til að koma á mikilvægum og tafarlausum umbótum, þannig einangrunarvist verði aldrei beitt í þágu rannsóknarhagsmuna.

Tíu börn sættu einangrun á tíu ára tímabili

Árið 2021 sættu sex af hverjum tíu allra gæsluvarðhaldsfanga á Íslandi einangrunarvist, en á tíu ára tímabili, frá árinu 2012 til 2021 sættu alls 825 einstaklingar einangrunarvist. Af þeim voru tíu á aldrinum 15 til 17 ára; börn samkvæmt skilgreiningu laganna.

Simon Crowther, lögfræðingur hjá alþjóðaskrifstofu Amnesty International, segir íslensk stjórnvöld hafa um árabil hafa verið meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi og skaðsemi hennar. Engu að síður hafi að meðaltali rúmlega 80 einstaklingar verið læstir einir inni í klefum sínum í 22 klukkustundir á sólarhring á hverju ári á árunum 2012 til 2021. Þar á meðal börn og einstaklingar með þroskahömlun. Á tímabilinu sættu 99 einstaklingar langvarandi einangrunarvist, eða lengur en í 15 daga. Fram kemur að það sé skýrt brot á alþjóðlegu banni gegn pyntingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

„Stjórnvöld verða að horfast í augu við staðreyndir. Íslensk stjórnvöld brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum sínum á sama tíma og Ísland gegnir formennsku stofnunar sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir og útrýma pyntingum í Evrópu. Ísland verður að gera marktækar breytingar til að sporna gegn pyntingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“, segir Crowther.

Simon Crowther, lögfræðingur alþjóðaskrifstofu Amnesty International, segir íslensk stjórnvöld vera …
Simon Crowther, lögfræðingur alþjóðaskrifstofu Amnesty International, segir íslensk stjórnvöld vera meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar og skaðsemi hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin lög um lengd einangrunarvistar

Einangrunarvist er ekki með öllu bönnuð samkvæmt alþjóðalögum en kveðið er á um að beiting hennar skuli heyra til algjörra undantekninga, hún skuli vara í sem skemmstan tíma og sé háð ströngum skilyrðum. Fram kemur í skýrslu Amnesty að engin þessara atriða séu virt á Íslandi, enda séu kröfur lögreglu um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi nánast alltaf samþykktar af dómurum, eða í allt að 99 prósent tilvika.

Samkvæmt íslenskum lögum má gæsluvarðhald ekki vara lengur en tólf vikur, en hægt er að fá það framlengt enn frekar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, vegna yfirstandandi rannsóknar lögreglu. Engin lög eða reglur gilda hins vegar um lengd einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi og gæti hún því varað í allt að tólf vikur, eða lengur eftir atvikum.

Tekið er fram að þó Guðmundar- og Geirfinnsmál hafi leitt til breyttrar stefnu um beitingu einangrunarvistar til lengri tíma, þá hafi nægar úrbætur ekki átt sér stað. Yfirvöld bera fyrir sig rannsóknarhagsmuni til að réttlæta beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi, en Amnesty lítur svo á að aldrei skuli beita einangrunarvist í þeim eina tilgangi. Enda stríði það gegn alþjóðlegri mannréttindalöggjöf um nauðsyn og meðalhóf.

Önnur og vægari úrræði séu tiltæk til að gæta rannsóknarhagsmuna, eins og að aðskilja gæsluvarðhaldsfanga frá tilteknum einstaklingum og takmarka símanotkun.

Einkenni gætu versnað í einangrun

Þá segir að skortur sé á varnöglum til verndar börnum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu sem eru í mikilli hættu á að bera skaða af einangrunarvist, eins og einstaklingar með líkamlega fötlun, geðraskanir eða þroskahömlun. Þetta eigi einnig við um einstaklinga með sumar taugaþroskaraskanir.

„Viðtöl rannsakenda Amnesty International við lögfræðinga og gæsluvarðhaldsfanga sýndu fram á fjölda tilfella þar sem einangrunarvist var beitt gegn einstaklingum þrátt fyrir mikla hættu á skaða. Það gengur í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands,“ segir í fréttatilkynningu frá Amnesty vegna útgáfu skýrslunnar.

„Í samræmi við alþjóðlegt bann gegn pyntingum og annarri illri meðferð ætti aldrei að hafa fólk í viðkvæmri stöðu í einangrunarvist, svo sem fólk með fötlun, geðraskanir eða taugaþroskaraskanir, þar sem einkenni gætu versnað við einangrun sem er því líkleg til að valda skaða,“ segir þar jafnframt.

Gæsluvarðhaldsfangar í einangrun eru lokaðir inni í klefum sínum í …
Gæsluvarðhaldsfangar í einangrun eru lokaðir inni í klefum sínum í allt að 22 klukkutíma á sólarhring. Ljósmynd/Íslandsdeild Amnesty International

Heilsufarsleg áhrif koma mjög fljótt fram

Fjöldi rannsókna bendi til þess að einangrunarvist hafi alvarleg heilsufarsáhrif, bæði líkamleg og andleg. Einkennin geti meðal annars komið fram sem svefnleysi, ruglingur, ofsjónir og geðrof. Slík neikvæð heilsufarsáhrif geti komið í ljós eftir aðeins örfáa daga í einangrun. Þá aukist sjálfsvígshætta og líkur á sjálfsskaða á fyrstu tveimur vikum í einangrun. „Hætta á heilsutjóni eykst með degi hverjum í einangrun.”

Í skýrslunni eru settar fram ábendingar um hverju þurfi að breyta að koma í veg fyrir óhóflega notkun einangrunarvistar og brot á alþjóðlegu banni um pyntingar.

Meðal annars er lagt til að regluverkinu verði breytt þannig að ekki sé hægt að krefjast gæsluvarðhalds eingöngu á grundvelli rannsóknarhagsmuna lögreglu. Að kynnt verði vægari úrræði sem hafi ekki jafn neikvæð áhrif á fólk og einangrunarvist.

Þá þurfi að meta betur þörf á einangrunarvist og banna alfarið notkun hennar þegar um er að ræða börn og fólk í viðkvæmri stöðu. Einnig að hún vari ekki lengur en í 15 daga.

Auka þurfi eftirlit í þeim tilfellum þar sem einangrunarvist er beitt, til að tryggja að ekki sé brotið á mannréttindum gæsluvarðhaldsfanga.

„Misbeiting einangrunarvistar er gríðarlega umfangsmikil á Íslandi, meðal annars á börnum og einstaklingum með fötlun. Íslensk stjórnvöld verða að tryggja viðeigandi úrbætur á hegningarlögum og að bæta menninguna í réttarkerfinu til að binda enda á mannréttindabrot. Til eru önnur úrræði sem ætti að beita frekar“, segir Crowther.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert