Fámenni þjóðar geti ekki réttlætt einangrun

Simon Crowther, lögfræðingur alþjóðaskrifstofu Amnesty International, telur skýringar stjórnvalda ekki …
Simon Crowther, lögfræðingur alþjóðaskrifstofu Amnesty International, telur skýringar stjórnvalda ekki halda vatni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Simon Crowther, lögfræðingur hjá alþjóðaskrifstofu Amnesty International, segir það alveg skýrt í alþjóðalögum að börn eigi aldrei að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi. Íslendingar hafi hins vegar ítrekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyntingum, meðal annars með beitingu úrræðisins á börn á aldrinum 15 til 17 ára, en tíu börn sættu einangrunarvist hér á landi á árunum 2012 til 2021. 

Í dag kom út ný skýrsla Amnesty International: „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“, þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við fyrirkomulag og notkun einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi hér á landi. Í henni kemur meðal annars fram að á Íslandi sé einangrunarvist beitt óhóflega og ítrekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyntingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einangrunarvist sé meðal annars beitt gegn einstaklingum með fötlun og börnum, sem ætti aldrei að líðast.

„Það er ólöglegt. Alþjóðalög eru mjög skýr hvað þetta varðar. Hvað varðar fullorðna þá teljum við það brot á mannréttindum að beita einangrun í þágu rannsóknarhagsmuna. En við samþykkjum að stjórnvöld hafi þann möguleika að beita einangrun sem refsingu í einstaka tilfellum, sem algjört síðasta úrræði. Lögin eru hins vegar algjörlega skýr þegar kemur að börnum. Það er óásættanlegt, líka sem refsing. Það getur valdið barninu of miklum skaða,” segir Crowther í samtali við mbl.is. 

Hér á landi eru heldur engir varnaglar þegar kemur að einstaklingum í viðkvæmri stöðu sem eru í mikilli hættu á að bera skaða af einangrunarvist, eins og einstaklingar með líkamlega fötlun, geðraskanir eða þroskahömlun. 

Skýringar yfirvalda haldi ekki vatni

Aðspurður hvers vegna einangrunarvist sé notuð jafn mikið á Íslandi og raun ber vitni segist hann ekki hafa skýr svör við því. Það sé í raun mjög áhugavert, því hún sé ekki notuð í jafn miklu mæli í mörgum öðrum löndum.

„Ég held að það séu nokkrar ástæður fyrir því. Ein er sú að það er ákveðin hefð fyrir því að beita einangrunarvist og yfirvöldum þykir það orðið þægilegt fyrirkomulag. Þetta er mjög skaðlegt úrræði en það virðist hafa gleymst hjá lögreglu, saksóknurum, dómurum og dómsmálaráðuneytinu. Kerfið hér er þannig að það er mjög auðvelt fyrir lögreglu að fara fram á það og saksóknara að óska eftir því og dómarar fallast á kröfuna um einangrunarvist í 99 prósent tilfella. Rúmur helmingur gæsluvarðhaldsfanga sætir einangrunarvist,” segir Crowther.

„En af hverju á Íslandi? Af hverju hefur þetta fyrirkomulag náð svona mikilli fótfestu hér, veit ég í raun ekki fyrir víst. Ein af þeim ástæðum sem yfirvöld gefa fyrir nauðsyn þess er fámenni þjóðarinnar. Allir þekkja alla. En það eru samt mörg önnur lítil lönd sem nota þetta ekki,“ segir hann. Skýringar stjórnvalda haldi því tæplega vatni.

„Ég vona samt að þetta vandamál verði úr sögunni fljótlega hér á landi og að yfirvöld hætti að beita einangrunarvist í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna,“ segir hann jafnframt.

Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi.
Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi. Ljósmynd/Íslandsdeild Amnesty International

Áhyggjur viðraðar árið 2008

Crowther segist bjartsýnn á að stjórnvöld hér á landi rýni í skýrsluna og taki áskorun Amnesty International um að koma á tafarlausum úrbótum.

„Aðdragandi að þessari skýrslu er sá að árið 2008 viðraði nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum áhyggjur sínar við íslensk stjórnvöld af óhóflegri beitingu einangrunarvistar hér á landi og gerði athugasemdir við fyrirkomulagið. Árið 2022 voru þessar áhyggjur ítrekaðar.

Og nú gerir Amnesty International grein fyrir alvarlegum áhyggjum sínum af því að óhófleg notkun einangrunarvistar hér á landi brjóti gegn banni gegn pyntingum.”

Í ljósi þess að Íslendingar gegni nú formennsku í Evrópuráðinu sé fullkomin tímasetning fyrir stjórnvöld til gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi og falla frá notkun einangrunarvistar vegna rannsóknarhagsmuna.

„Ég get aðeins verið bjartsýnn, en stjórnvöld hafa gert Sameinuðu þjóðunum grein fyrir því að verið sé að endurskoða löggjöfina.“

Engar breytingar verið gerðar

Hann segist þó ekki geta séð að neinar breytingar hafi átt sér stað frá því Sameinuðu þjóðirnar gerðu fyrst athugasemdir árið 2008 og til dagsins í dag. Á tíu ára tímabili, frá árinu 2012 til 2021, hafi að meðaltali rúmlega 80 einstaklingar á ári sætt einangrunarvist á hverju ári. Það hafi ekki breyst.

„Við sjáum ekki mikla fækkun, eins og við myndum vilja sjá. Ekki ennþá að minnsta kosti.“

Aðspurður segir hann ekki hafa verið gerða samanburðarrannsókn við til dæmis Norðurlöndin. Tölfræði er þó víða birt opinberlega og ef við skoðum Danmörku þá sættu 6 einstaklingar þar einangrun allt árið 2021, en það sama ár sættu 70 einstaklingar einangrun á Íslandi.

Þá segir Crowther að einangrunarvist sé aldrei beitt í gæsluvarðhaldi í Bretlandi vegna rannsóknarhagsmuna. „Það er frekar venjan en hitt. Einangrun er beitt sem refsingu, en ekki í þágu rannsóknarhagsmuna, eins og virðist vera vandamál hér.“

Hann segir önnur vægari úrræði nýtt annars staðar, sem komi að svipuðu gagni í gæsluvarðhaldi. Til að mynda sé hægt sé að takmarka fjölda þeirra sem gæsluvarðhaldsfangar séu í samskiptum við. Þeir hitti því kannski ekki marga, en séu að minnsta kosti ekki lokaðir einir inni í 22 tíma á sólarhring. Einnig sé hægt að takmarka símtöl.

„Það eru ýmsar leiðir færar sem notaðar eru víða um heim til að tryggja öryggi rannsóknar og því þarf ekki að nota þetta fyrirkomulag.“

Mjög alvarlegt vandamál

Crowther segir Amnesty International hafa verið í samtali við stjórnvöld vegna málsins og að stjórnvöld hafi verið meðvituð um gerð skýrslunnar. Þar fyrir utan séu skýrslur Sameinuðu þjóðanna allar opinberar, þannig stjórnvöld séu meðvituð um vandamálið og hafi verið það í langan tíma.

Um sé að ræða mjög alvarlegt vandamál og ef það væri vilji til að bæta ástandið, þá ætti að vera hægt að gera breytingar á lögunum hratt og örugglega.

Niðurstöður skýrslunnar komu Crowther á óvart og hann telur að þær hafi komið öllum á óvart, enda langt síðan athugasemdir Sameinuðu þjóðanna komu fram.

Kollegar hans hér á landi voru að fara yfir gögn vegna reglulegrar skoðunar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem er gerð á fjögurra ára fresti, og rákust þá á athugasemdir við einangrunarvist frá árinu 2008. „Þau vildu kanna hvort þetta væri ennþá vandamál og það sem þau komumst að kom þeim á óvart og þess vegna var ákveðið að ráðast í gerð þessar skýrslu.“

Hætta á fölskum játningum

Crowther telur að enginn geti gert sér hugarlund um hvernig það er að vera lokaður inni í 22 klukkutíma á dag, nema að reyna það á eigin skinni. Einangrunarvist geti haft alvarleg heilsufarsleg áhrif á fólk, bæði líkamleg og andleg.

„Mér brá mikið þegar ég las yfir læknisfræðileg gögn. Það er mjög aukin sjálfsvígshætta og hætta á sjálfsskaða. Fólk þjáist raunverulega. Mér finnst eins og það hafi gleymst á Íslandi því miður, en það þarf að vera það fyrsta sem fólk gerir sér grein fyrir, hve sársaukafullt þetta úrræði er.“

Þá segir Crowther vera raunverulega hættu á að fólk játi á sig glæp sem það framdi ekki við þessar aðstæður. „Ef fólk er að bíða eftir ákæru, það er eitt og fast og þráir mikið komast úr einangrun, því það er svo sársaukafullt, þá er hætta á að fólk játi. Þá er búið að þrýsta á að það breyti afstöðu sinni.“

mbl.is