„Stærsti óvinur almennings í landinu“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd/mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi verið á verðbólguvaktinni því nú sé spáð að verðbólgan muni hjaðna á árinu. Það sé risastórt verkefni enda „verðbólgan er auðvitað stærsti óvinur almennings í landinu,“ sagði Katrín á Alþingi í dag. 

Þar gerði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, viðbrögð stjórnvalda við verðbólgunni að umtalsefni. Hún minnti á að verðbólgan væri komin í tæplega 10% og að stærstu þættirnir sem hækka séu „bensín, matvörur og áfengi, eru bein afleiðing ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Neytendasamtökin hafa dregið þetta ágætlega saman: Hækkanir ríkisstjórnarinnar á bensíni, búsi og búvörum leiða þessar hækkanir. Allt eru þetta þættir sem ríkisstjórnin gat haft áhrif á en gerði ekki heldur miklu frekar hitt,“ sagði Þorgerður Katrín. 

Hún sagði enn fremur að það væru fyrst og fremst heimilin í landinu sem borga brúsann.

Breiðu bökunum hlíft en almenningi ekki

„Við þessum hækkunum var hins vegar ítrekað varað af hálfu launþegahreyfinganna, Samtaka atvinnulífsins og Neytendasamtakanna en á þau var ekkert hlustað hér fyrir jól. Á sama tíma þá fellur ríkisstjórnin frá því að hækka gjöld á fiskeldisfyrirtækin á næsta ári eins og fyrirhugað var. SFS sendi bara eitt bréf og mótmælti og það dugði fyrir ríkisstjórnina. Breiðu bökunum er hlíft en heimilunum ekki,“ sagði Þorgerður Katrín og vildi fá að vita hvert væri plan stjórnvalda í baráttunni við verðbólguna. 

Katrín sagði að þessi barátta væri eitt brýnasta málið sem stjórnvöld væru að takast á við núna eins og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum.

„Við erum að glíma við mestu verðbólgu sem sést hefur um árabil víðast hvar annars staðar, en við Íslendingar höfum kannski meiri reynslu af því að takast á við verðbólgu en flest nágrannaríki okkar,“ sagði hún. 

Vægast sagt einföldun

Katrín vísaði til ýmissa aðgerða sem ríkisstjórnin hefði gripið til í baráttunni við verðbólguna. Hún væri aftur á móti á breiðum grunni. „Eins og ég segi, þetta er eitt stærsta verkefnið til að takast á við. En það að benda á hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi sem eina sökudólginn í þessu, það er vægast sagt einföldun.“

Þorgerður Katrín sagði að misréttið í samfélaginu myndi halda áfram „ef við tökum ekki á þessu þar sem heimilin á Íslandi eru sett undir það að bera upp íslensku krónuna meðan breiðu bökin og vinir ríkisstjórnarinnar fá að leika sér fyrir utan íslenska krónuhagkerfið.“

Ríkisstjórnin hafi gripið til aðgerða

Katrín benti Þorgerðu Katrínu á, að íslenska krónan beri ekki ábyrgð á verðbólgunni í Evrópu og í löndunum í kringum Ísland, þar sem hún sé víðast hvar hærri en á Íslandi.

„Við getum ekki skellt skuldinni af verðbólgunni á íslensku krónuna. Við verðum líka að átta okkur á því að ríkisstjórnin var með aðgerðir gegn þenslu í fjárlagafrumvarpinu, nákvæmlega eins og kynnt var og ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir að vekja athygli á því, með ákveðnu aðhaldi og með ákveðinni tekjuöflun. Ríkisstjórnin hefur líka gripið til aðgerða til að verja tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar. Ég þarf ekkert að minna hér á húsnæðisstuðninginn, ég þarf ekki að minna á hvernig við gripum strax inn í til að verja kjör þeirra sem fá greiðslur úr almannatryggingum þannig að það er alveg ljóst að við höfum verið á vaktinni,“ sagði Katrín.

mbl.is