Atvinnuleysi ekki mælst minna síðan fyrir faraldur

Atvinnuleysi mældist lægra en það hefur gert síðustu ár.
Atvinnuleysi mældist lægra en það hefur gert síðustu ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólki hefur fjölgað á vinnumarkaði á seinstu árum og einstaklingum í starfi fjölgaði um 11.500 manns á milli fjórða ársfjórðungs 2021 og sama ársfjórðungs í ár. Þar að auki hefur hlutfall starfandi einstaklinga ekki verið jafn hátt á fjórða ársfjórðungi síðan árið 2017 og atvinnuleysishlutfall hefur ekki verið lægra síðan árið 2019. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Ísland.

Undir lok ársins 2021 voru 200.500 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára starfandi hér á landi en fjöldi einstaklinga í starfi hefur aukist upp í 212.400 síðan þá. Um 76,9 prósent einstaklinga eru nú starfandi, sem er 1,8 prósentustigum hærra en starfshlutfallið var árið áður. Þar af mældust um 156.000 einstaklingar í fullu starfi á seinasta ársfjórðungi og voru um 65,6 prósent kvenna í fullri vinnu og 83,5 prósent karla. Þó jókst heildarhlutfall fólks í fullri vinnu aðeins um 0,4 prósentustig.

Atvinnuleysi hefur heldur ekki verið lægra síðan kórónuveirufaraldurinn hófst og mældist hlutfall atvinnulausra um 3,3 prósent á fjórða ársfjórðungi 2022. Á sama árstíma árið 2021 mældist atvinnuleysi um 4,4 prósent og 7,6 prósent á sama tíma árið 2020. Fjöldi ungs fólks í vinnu hefur einnig aukist. Um 69 prósent einstaklinga á aldrinum 16-24 ára voru starfandi á seinasta ársfjórðungi og lækkaði hlutfall atvinnulausra á þeim aldri úr 7,8 prósentum niður í 5,8 á milli fjórðu ársfjórðunga áranna 2021 og 2022.

Af þeim sem voru í hlutastarfi seinasta ársfjórðung töldust 7.100 vinnulitlir (þ.e. einstaklingar í hlutastörfum sem geta og vilja vinna fleiri stundir en þeir gera) en 9.300 einstaklingar töldust vinnulitlir um sama tíma á árinu áður.

Í allt má samt sjá að fleiri einstaklingar hafa verið við störf á síðasta ársfjórðungi heldur en á svipuðum tíma á seinastliðnum árum. Færri hafa þurft að kljást við atvinnuleysi eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk og auðveldara er fyrir landandsmenn að fá fulla vinnu heldur en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert