Erindi Sólveigar verði svarað af ráðuneytinu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bréfi Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, verður svarað af forsætisráðuneytinu. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is en hún vildi ekki tjá sig nánar um innihald bréfsins. 

Sólveig sendi ráðherra bréf í gær þar sem hún óskaði eftir fundi með Katrínu og að hún deildi með Efl­ingu „þeirri ráðgjöf sem hún seg­ist hafa fengið frá sér­fræðing­um um að miðlun­ar­til­laga rík­is­sátta­semj­ara sé lög­leg“.

Vitnaði Sólveig þar í ummæli sem Katrín lét falla í fjölmiðlum um lögmæti miðlunartillögunnar. 

„Að sjálfsögðu svörum við bréfinu eins og öllum erindum sem til okkar koma,“ segir Katrín. 

Deilumálin endurspegli hversu flókið málið sé

Í gær boðaði Efling frekari verkföll á hótelum í Reykjavík en einnig hjá félagsmönnum sem starfa hjá Sam­skip, Ol­íu­dreif­ingu og Skelj­ungi.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sögðu í viðtali við mbl.is í gær að verkfall olíubílsstjóra gæti valdið miklu tjóni í samfélaginu. 

Katrín segir að ríkisstjórnin hafi ekki rætt þá verkfallsboðun sérstaklega.

„Það eru náttúrulega engin verkföll hafin og eins og fram hefur komið þá er þessi deila mjög hörð,“ segir hún og nefnir að þrjú deilumál eru í gangi varðandi deiluna. 

Í fyrsta lagi mál ríkissáttasemjara gegn Eflingu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna vanskila á kjörskrá Eflingar svo að hægt sé að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. 

Í öðru lagi stjórnsýslukæru Eflingar til ráðuneytis vinnumarkaðsmála vegna ákvörðunar rík­is­sátta­semj­ara um að leggja fram miðlun­ar­til­lög­una.

Í þriðja lagi mál Sam­taka At­vinnu­lífs­ins (SA) gegn Efl­ingu fyr­ir Fé­lags­dómi þar sem SA telur boðaða vinnu­stöðvun Efl­ing­ar ólög­mæta vegna miðlunartillögunnar. 

„Ég held einfaldlega að þetta endurspegli hversu flókin og hörð deilan er.“

Deilan fyrst og fremst á milli Eflingar og SA

Katrín nefnir að stjórnvöld hafi kynnt sínar aðgerðir vegna samninga á almennum vinnumarkaði í desember þegar samningar hluta vinnumarkaðarins lágu fyrir. 

„Nú er þessi deila í mjög hörðum hnút en hún er auðvitað fyrst og fremst á milli Eflingar og SA,“ segir hún og bætir við að því sé það ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að leysa úr deilunni. 

„Það er mikilvægast að deiluaðilar geti náð saman og auðvitað vonum við – þó að deilur geti oft verið mjög harðar – þá finnast nú stundum lausnir samt,“ segir Katrín og bætir við að lokum að stjórnvöld fylgist þó náið með stöðunni. 

mbl.is