Heimild um vernd fyrir Úkraínumenn framlengd

Fjöldi flóttamanna með tengsl við Úkraínu hefur komið til landsins …
Fjöldi flóttamanna með tengsl við Úkraínu hefur komið til landsins og sótt um alþjóðlega vernd frá því að stríðið hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að framlengja gildistíma 44. gr. útlendingalaga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Upphaflega var ákvörðun um virkjun greinarinnar tekin 4. mars í fyrra og gilti til eins ár. Ákvörðun um framlengingu er tekin að undangengnu samráði, innan lands sem utan, þar á meðal við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að því er segir í tilkynningu.

Átök hafa geisað í Úkraínu um 11 mánaða skeið með tilheyrandi eyðileggingu og skemmdum á borgum, bæjum og innviðum landsins. Þá er óvissan um framhaldið gríðarleg.

Á þriðja þúsund manns

Á síðasta ári sóttu 2.350 einstaklingar um tímabundna vernd á grundvelli 44. gr. útlendingalaga hér á landi. Þar af hefur Útlendingastofnun þegar veitt tæplega 2.200 umsækjendum slíka vernd. Einhverjar umsóknir eru enn í vinnslu og lítill hluti umsókna hefur hlotið aðrar lyktir, svo sem vegna þess að þær hafa verið dregnar til baka af hálfu umsækjanda.

Flóttamenn á landamærum Úkraínu við Póllan á síðasta ári.
Flóttamenn á landamærum Úkraínu við Póllan á síðasta ári. AFP/Louisa Gouliamaki

Ef horft er til heildarfjölda umsókna um tímabundna vernd árið 2022 er meðaltal umsókna á mánuði 235 frá mars til desemberloka. Ekki verður séð að fjöldi umsækjenda um tímabundna vernd hafi dregist teljanlega saman undanfarna mánuði frá því sem var mánuðina þar á undan, segir í tilkynningunni.

mbl.is