Hvöss suðaustanátt og gular viðvaranir víða

Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 13 á morgun, fimmtudag.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 13 á morgun, fimmtudag.

Búist er við hvassri suðaustanátt í fyrramálið, með hviðum um 35 m/s undir Eyjafjöllum, Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

Vegagerðin varar við þessu í tilkynningu. Bendir hún á að snjóa muni á Hellisheiði og að þar verði blint, en að rigna fari fyrir hádegi.

Víða verður þá hvass vindur og snjókoma síðdegis á fjallvegum um norðanvert landið, með erfiðum akstursskilyrðum.

Úrkoma verður um allt land og víða í formi slyddu eða snjókomu, og hiti verður í kringum frostmark.

Viðvörunarkort Veðurstofunnar á hádegi á morgun.
Viðvörunarkort Veðurstofunnar á hádegi á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Viðvaranir taka gildi klukkan 5

Veðurstofan hefur einnig gefið út gular viðvaranir fyrir morgundaginn, sem taka gildi klukkan 5 árdegis á suðvesturhorninu og ganga norðaustur yfir landið rétt eins og veðrið.

Falla þær síðustu úr gildi á Norðurlandi og Austfjörðum á miðnætti annað kvöld, að óbreyttu.

Eins og mbl.is fjallaði um í gær kemur önnur lægð á eftir þessari og það strax á föstudaginn.

Snörp leysing gæti valdið vandræðum

Þá gengur í suðaustan 15-23 m/s með rigningu, einkum á sunnanverðu landinu. Um leið hlýnar og verður hiti 2 til 8 stig síðdegis.

„Það verður hvassara á föstudag en á morgun og verður veðrið ekkert skárra en það er hlýrra. Það getur orðið snörp leysing á föstudag sem gæti vissulega valdið vandræðum,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Líkur eru svo á fleiri lægðum upp við landið en óvíst hversu öflugar þær verði.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is